Erna Sverrisdóttir
Síðdegi í sveitinni
04. ágúst 2015

Síðdegi í sveitinni

Síðdegin í sveitinni eru mér kær. Góður dagur að baki. Oft með gönguferð, lestri eða dútli. Ekki skemmir sólin eða hlýr vindur. Svo sest maður niður. Úti, með góðu fólki, vínglasi og snarli.

Það er ótrúlega þægilegt að setja osta saman með grænmeti, ávöxtum og hnetum á eitt stórt fat. Í stað þess að búa til fullt af snittum. Bæði sparar það tíma og er líka fallegt á að líta. Bera fram með góðu brauði, t.d. súrdeigsbrauði eða kexi. Hér býð ég upp á tvær slíkar útgáfur. Og eitthvað sætt verður að fá að fylgja með. Ég mæli með að þið prófið þessar dásamlegu sætu tortillur. Mjög fljótlegar og svo seðja þær og gleðja alla.

 

 

 

Fetaostur með karamellutómötum

(fyrir 4-6)


Karamellutómatar:

4 plómutómatar
1 dl sykur
2 msk smjör
2 msk fersk basilíka, söxuð

 

Salat:

handfylli af klettasalati
2 ferskjur, skornar í teninga
nokkur hindber
nokkur jarðarber
100 g eða meira af fetaosti, ekki í vökva, mulinn
50 g pistasíur, saxaðar

 

1. Sjóðið vatn í litlum potti. Skerið kross í kjarna tómatana og setjið þá í örskamma stund í sjóðandi vatnið. Kælið og afhýðið.

2. Bræðið sykur á pönnu þar til hann bráðnar og verður ljósbrúnn. Ekki hræra í á meðan. Þegar sykurinn er bráðnaður setjið þá smjör saman við og svo tómatana. Veltið þeim upp úr karamellunni í 2 mínútur. Takið af pönnunni og skerið í bita og blandið basilíku varlega saman við.

3. Dreifið klettasalati á fat, raðið ferskjum, tómötum, berjum og fetaosti yfir. Dreypið vökvanum sem varð eftir steiktu tómatana ofan á. Sáldrið loks pistasíum yfir. Berið fram með súrdeigsbrauði og tómatavökvanum ef einhver er eftir.

 

 

Perusalat með fíkjum, hráskinku, camembert- rjómasósu og karamelluvalhnetum

(fyrir 4-6)

Camembert-rjómasósa:

1 camembert, skorinn í bita
1 dl rjómi eða matreiðslurjómi
svartur pipar

 

Karamelluvalhnetur:

1 msk sykur
1 msk smjör
sjávarsalt á hnífsoddi
60 g valhnetur


Salat:

ríflegt handfylli af klettasalati
2 stórar perur, skornar í þunnar sneiðar
örlítill sítrónusafi
1 tsk ólífuolía
4 ferskar fíkjur, skornar í báta
nokkur bláber eða brómber
hráskinka eftir smekk

 

1. Bræðið saman á pönnu sykur og smjör. Veltið valhnetum upp úr þar til klístrað. Saltið. Setjið til hliðar.

2. Hitið rjóma í potti á lágum hita. Setjið camembert út í og látið hann bráðna. Hrærið og piprið.

3. Dreifið klettasalati á fat. Setjið perubita yfir. Kreistið smá sítrónusafa yfir og dreypið á með ólívuolíu. Raðið þá fíkjum, hráskinku, bláberjum og valhnetum þar ofan á. Toppið loks með ostasósunni. Berið fram með súrdeigsbrauði.

 

Tortillakökur með rjómaosti, nutella, hvítu súkkulaði, sykurpúðum og banönum

(fyrir 4-6)

4 tortillukökur
4 tsk hreinn rjómaostur
Nutella eftir smekk
2 litlir bananar, skornir í sneiðar
litlir sykurpúðar eftir smekk eða stórir, skornir í litla bita
60 hvítt súkkulaði, saxað

 

1. Smyrjið hverja tortilluköku með rjómaosti og nutella.

2. Leggið bananasneiðar,  nokkra sykurpúða yfir helming hverjar köku. Sáldrið smá súkkulaði þar yfir. Brjótið kökuna saman. Grillið þar til fyllingin bráðnar. Skerið  og berið fram. Einnig gott að hafa þeyttan rjóma sem meðlæti.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!