Erna Sverrisdóttir
Sætir molar á aðventu
04. desember 2017

Sætir molar á aðventu

Sætir molar á aðventu

Núna eru komnar tvær tegundir að jólakonfekti í ísskápinn minn. Að minnsta kosti síðast þegar ég vissi. Þeir eru fljótir að fara! Og hef ég tvo grunaða.

Á hverju ári prófa ég mig áfram í nýjum sortum. Ég vildi samt óska að ég væri með betri fínhreyfingar. Því útlitslega verða molarnir mínir alltaf dálítið villtir, skulum við segja. En þeir bragðast alveg ljómandi vel!

 

Brjóstsykurstrufflur

10 jóla-brjóstsykurstafir

300 g Oreokex

200 g síríussúkkulaði

2 tsk. vanilla

¾ dl rjómi frá Gott í matinn

200-300 g hvítt súkkulaði

  1. Myljið stafina í matvinnsluvél eða blandara. Setjið í skál og takið 2 msk. úr skálinni og setjið í aðra.
  2. Myljið kexið í vélinni þar til það verður eins og sandur. Bræðið 200 g af Síríussúkkulaði og hellið því saman við kexblönduna í vélinni ásamt vanillu. Hrærið og setjið loks rjómann og brjóstsykursmulning út í, nema þessar 2 msk. Geymið deigið í ísskáp í 30 mínútur.
  3. Mótið kúlur úr deiginu, stærð fer eftir smekk. Leggið á fat klætt bökunarpappír og setjið í frysti eða ísskáp í smá stund.
  4. Bræðið hvíta súkkulaðið. Setjið kúlurnar í súkkulaðibað og sáldrið brjóstsykursmulningnum yfir kúlurnar. Geymið í ísskáp.

 

Ostakökutrufflur

100 g sírussúkkulaðidropar

1 box (125 g) hreinn rjómaostur frá Gott í matinn

13 ískex

2 msk hindberjasulta

Sjávarsalt á hnífsoddi

Síríussúkkulaðidropar til að hjúpa

Gróft kókosmjöl til að hjúpa eða skreyta

Frostþurrkuð  eða þurrkuð ber, til að skreyta

Saxaðar hnetur að eigin vali, til að skreyta

  1. Bræðið 100 g af súkkulaði.
  2. Myljið ískexið í matvinnsluvél eða í blandara þar til það verður að fíngerðri mylsnu.
  3. Hrærið saman í hrærivél eða í matvinnsluvél rjómaosti og bræddu súkkulaði. Bætið kexmulningnum saman við, sultunni og saltinu. Hrærið. Geymið í kæli í a.m.k. 4 tíma.
  4. Mótið kúlur úr deiginu, stærð fer eftir smekk. Dýfið þeim í brætt súkkulaði eða veltið þeim upp úr kókosmjöli. Skreytið að vild með hnetum, kókos eða berjum.
  5. Geymið í kæli.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!