Erna Sverrisdóttir
Pizza með mascarponeosti, sýrðum rjóma, hráskinku og bláberjum
07. október 2014

Pizza með mascarponeosti, sýrðum rjóma, hráskinku og bláberjum

Upp á síðkastið hef ég verið iðin í eldhúsinu við að útbúa nýjar pizzutegundir. Hér kemur ein sem ég bauð tveimur góðum vinkonum upp á eitt rigningarkvöldið. Þessi pizza er ekki með hefðbundinni tómatpizzusósu heldur hrærði ég saman mascarponeost og sýrðan rjóma. Það kom dásamlega vel út. Ofan á pizzuna fóru bláber og hráskinka. Mjög falleg litapalleta á pizzu, hvítir og fjólubláir tónar. Til að halda mig við þessa liti ákvað ég að skella í berjatertu með brómberjum og hvítu súkkulaði. Ég er mjög hrifin af kökum sem þurfa lítinn undibúning og þarfnast ekki hrærivélar. Kakan er afar ljúffeng, sæt en fersk og ekki skemmir kaldur, létt þeyttur rjómi eða þykk og mjúk grísk jógúrt.

 


Pizza með mascarponeosti, sýrðum rjóma, hráskinku og bláberjum

(2 stk.)

 

Botn:

1 ½ dl ilvolgt vatn

1 ¼ tsk þurrger

sykur á hnífsoddi

½ msk ólívuolía

u.þ.b. 3 dl hveiti, eða eins og þurfa þykir

½ tsk sjávarsalt

 

álegg:

100 g mascarpone við stofuhita

2 msk sýrður rjómi

100 g bláber

hráskinka, eftir smekk

1-2 tsk ferskt timían

smá rifinn sítrónubörkur, má sleppa

balsamiksýróp, eftir smekk, má sleppa

 

 

    1.        Leysið gerið upp í vatninu. Setjið sykur og olíu saman við. Hrærið.

    2.        Setjið salt og hveitið saman við, smátt og smátt eða þar til þið eruð komið með viðráðanlegt deig. Hnoðið góða stund og látið síðan hefðast í hreinni skál. Hyljið með viskustykki og látið hefast á hlýjum stað í 30 mínútur.

    3.        Skiptið deiginu í tvennt og fletjið út í tvo renninga eða hringi.

    4.        Hrærið saman mascarponeost og sýrðan rjóma. Smyrjið á botnana. Sáldrið bláberjum yfir. Stillið ofninn á 200° og bakið í u.þ.b. 15 mínútur.

    5.        Dreifið hráskinku og fersku timían yfir, sömuleiðis sítrónuberki og smá skvettu af balsamiksýrópi ef þið kjósið.

 


Brómberjaterta með hvítu súkkulaði, rjóma eða grískri jógúrt

 

2 dl sykur

4 ½ dl hveiti

1 tsk lyftiduft

3 egg

börkur af 1 sítrónu

1 ¼ dl matreiðslurjómi

100 g smjör, skorið í litla teninga

1 12 - 2 dl frosin brómber

1 dl hvítt súkkulaði, súkkulaðidropar eða saxað hvítt súkkulaði

 

meðlæti:

 

þeyttur rjómi eða grísk jógúrt

 

    1.        Stillið ofninn á 180°.

    2.        Hrærið saman í skál með skeið sex fyrstu hráefnin. Passið að hræra ekki of mikið eða of lengi. Blandið smjörbitunum saman við og hellið deiginu í kökuform sem er 24 cm í þvermál og klætt bökunarpappír. Þrýstið súkkulaði og brómberjum létt niður með fingrunum.

    3.        Bakið í 30-40 mínútur eða þar til kakan er gullin og bökuð í gegn. Berið fram með létt þeyttum rjóma og eða upphrærðri grískri jógúrt.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!