Erna Sverrisdóttir
Pizza með kjötbollum og sumarlegt hindberja-sykurpúða fondue
24. maí 2016

Pizza með kjötbollum og sumarlegt hindberja-sykurpúða fondue

Á síðustu árum hefur tómatsósu pizzan verið á undanhaldi á mínu heimili. Þó svo að syni mínum finnist ekkert betra en pizza margarita. Ég hef prófað að nota rjóma og sýrðan rjóma með alls konar ostum. Dýrðlegt. Hér er ein ljúffeng útfærsla. Pizza með litlum ítölskum kjötbollum og sósu úr rjóma, parmesanosti og sítrónusafa. Ef þið hafið ekki tíma til að útbúa bollurnar, sem taka samt enga stund að gera, má setja pepperóní eða beikon. Eftir svona pizzu er best að ljúka máltíðinni með stíl. Þess vegna kem ég með fondue úr hindberjum, sykurpúðum og rjóma. Það fellur í kramið hjá öllum aldursflokkum og er líka afar gott sem íssósa eða ofan á marensköku með þeyttum rjóma. Ekki segja nei við hindberja-sykurpúða fondue!

Pizza með kjörbollum

( 1 stór eða 4 litlar pizzur)

 

Botn:

2 ½ dl ilvolgt vatn

1 tsk þurrger

½ tsk sykur

1 tsk salt

hveiti eins og þurfa þykir

 

Sósa:

2 ½ dl rjómi

rúmur 1 dl fínrifinn parmesanostur

1 msk sítrónusafi

 

Kjötbollur:

250 g nauta- eða svínahakk

2 msk möndlumjöl eða brauðraspur

6 msk parmesanostur

2 ½ msk furuhnetur, saxaðar

½ msk sírónusafi

fínrifinn börkur af ½ sítrónu

1 hvítlauksrif, marið

2 msk ítölsk steinselja, söxuð

½ pískað egg

sjavarsalt og svartur pipar

 

Annað:

1 lítill rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar

svartur pipar

ítölsk steinselja eftir smekk, söxuð

rifinn parmesanostur eftir smekk

 

1. Leysið gerið upp í vatninu. Setjið sykur og salt saman við. Bætið hveiti út í smátt og smátt eða þar til deigið er meðfærilegt og óklístrað. Hnoðið stutta stund. Smyrjið hreina skál með ólívuolíu og setjið deigið í hana. Hyljið með rökum klút og látið hefast á hlýjum stað í klukkutíma.

2. Blandið öllu saman sem á að fara í kjötbollurnar. Smakkið til með pipar og salti. Blandið saman með höndunum. Mótið u.þ.b. 36 litlar kjötbollur.
3. Snúið ykkur að sósunni. Blandið rjóma, parmesanosti og sítrónusafa saman og látið standa í 5 mínútur.

4. Skiptið deiginu í fjóra hluta eða notið það heilt. Fletjið út og leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Setjið sósuna á botnana/botninn. Sáldrið rauðlauk yfir og piprið. Raðið síðan kjötbollunum ofan á. Bakið í u.þ.b. 15 mínútur við 225°, 200° á blæstri. Sáldrið ítalskri steinselju yfir og parmesanosti ef vill.

 

Hinberja og sykurpúða fondue

(fyrir 4-6)

 

250 g hindber, frosin eða fersk

180 g sykurpúðar, saxaðir

1 ½ dl rjómi

 

Meðlæti:

sykurpúðar

fersk ber

niðurskornir ávextir

kex

 

Aðferð:

1. Maukið berin. T.d. með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Þíðið berin ef notuð eru frosin.

2. Setjið í pott ásamt sykurpúðum og rjóma. Bræðið saman á lægstum hita. Hrærið í þar til allt hefur samlagast. Berið fram með meðlæti að eigin vali.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!