Erna Sverrisdóttir
Pasta í ostasósu með ofnbökuðum tómötum, beikoni og baunum og marensterta með íslenskum aðalbláberjum og vanillukremi
27. ágúst 2014

Pasta í ostasósu með ofnbökuðum tómötum, beikoni og baunum og marensterta með íslenskum aðalbláberjum og vanillukremi

 

Eftir erfiða en dásamlega fjallgöngu, berjamó og útveru kemur ekkert annað til greina en orkuríkur og ljúffengur kvöldverður. Pasta, ostur og rjómi uppfylltu fullkomlega löngun mína eftir slíkan dag nú í ágúst. Og mikið var gleðin að geta nýtt og notið bláberjanna sem við fjölskyldan tíndum á lyngskrýddu fjalli á Norðurlandi. Bláber og rjómi bregðast aldrei.

Pasta uppskriftin er lauslega byggð á uppskrift sem ég fékk á netinu, á annars frábæru matarbloggi er kallast, What Katie ate.  Bloggið er uppfullt af matarmiklum uppskriftum sem hvorki hræðast rjóma, ost eða smjör.

 

Pasta í ostasósu með ofnbökuðum tómötum, beikoni og baunum

(fyrir 6)

 

250 g krisuberjatómatar

ólívuolía

sjávarsalt og svartur pipar

handfylli af ferskri basilíku og smá aukalega

500 g tagliatelle

350 g beikon, skorið í frekar stóra bita

7 ½ dl rjómi

200 g parmesanostur, rifinn

5 dl frosnar grænar baunir, þiðnar

 

1. Stillið ofninn á 200°.

2. Setjið tómatana heila í eldfast form eða á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Skvettið smá ólívuolíu yfir. Saltið og piprið. Rífið síðan basilíku gróflega og sáldrið yfir. Bakið í 15 mínútur.

3. Byrjið að sjóða pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka.

4. Steikið beikon á pönnu upp úr örlítilli ólívuolíu. Hellið rjómanum yfir og setjið parmesanostinn saman við. Látið malla á mjög vægum hita í 10 mínútur. Saltið og piprið eftir smekk. Setjið loks baunirnar saman við þegar pastað er tilbúið.

5. Leggið pastað á fat og hellið sósunni yfir. Blandið varlega saman. Dreifið tómötunum yfir og sáldrið saxaðri basilíku yfir.

 

Marensterta með vanillukremi og bláberjum

 

marensbotn:

 

3 eggjahvítur

2 dl sykur

½ tsk vanillusykur

½ tsk maizenamjöl

1 tsk hvítvínsedik

 

krem:

 

2 ½ dl matreiðslurjómi

½ dl sykur

½ vanillustöng, klofin í tvennt

1 egg

2 msk maizenamjöl

2 ½ dl rjómi

200 g eða meira af bláberjum

 

1. Stillið ofninn á 250°. Teiknið hring á bökunarpappír sem er 24 cm í þvermál.

2. Stífþeytið eggjahvíturnar. Bætið sykrinum saman við smátt og smátt. Síðan maizenamjöli og loks hvítvínsediki. Hrærið aðeins áfram. Látið marensinn á  teiknaðan hringinn og setjið í ofninn, frekar neðarlega. Stillið ofninn á 100° um leið og marensinn er kominn inn í ofninn. Bakið í klukkutíma.

3. Skrapið kornin úr vanillustönginni. Setjið kornin, stöngina, matreiðslurjóma og sykur í pott. Látið sjóða.  Pískið saman egg og maizenamjöl og hellið út í. Hrærið hratt, látið sjóða. Takið pottinn af hellunni um leið og blandann er orðin að þykku kremi. Kælið.

4. Þeytið rjómann og blandið vanillukreminu varlega saman við með sleikju. Setjið á marensbotninn og sáldrið bláberjum yfir. Skreytið ef vill, með flórsykri.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!