Erna Sverrisdóttir
Partýréttir fyrir gamlárskvöld
21. desember 2017

Partýréttir fyrir gamlárskvöld

Þessir tveir partýréttir eru afar ljúffengir og mjög veisluvænir. Það tekur líka enga stund að útbúa þá. Tilvalið yfir áramótaskaupinu eða eftir miðnætti á nýársnótt.

Buffaló kjúklinga tacos með fetaosti

Um 500 g kjúklingalundir, skornar í munnbita

Sjávarsalt og pipar

Hveiti

1 msk. olía, t.d. hvítlauksolía

1 ½ dl hot wings sósa (ég notaði Franks Redhot wings)

300 g kokteiltómatar, saxaðir

Safi úr 1 límónu

Handfylli af kóríander, saxað

150 g fetakubbur frá Gott í matinn, mulinn

 

Meðlæti:

Tortillakökur eða nachos

Sýrður rjómi frá Gott í matinn

 

Saltið og piprið kjúklingabitana og veltið þeim upp úr smá hveiti. Brúnið kjúklingabitana á pönnu upp úr olíu. Hellið sósunni yfir og látið malla smá stund eða þar til kjúklingabitarnir eru eldaðir í gegn. Látið aðeins rjúka úr og setjið í form eða á fat.

Blandið tómötum, kóríander og límónusafa saman. Saltið aðeins. Dreifið yfir kjúklinginn. Toppið með fetaostinum.

Berið fram með niðurskornum tortillakökum og sýrðum rjóma.

 

Ostaídýfa með beikoni og salsasósu

1 box 125 g hreinn rjómaostur frá Gott í matinn

½ dl sýrður rjómi frá Gott í matinn

1 dl majónes

½ tsk. oregano

¼ tsk. rauðar piparflögur

2 ½ dl  Óðals Cheddar, rifinn

2 ½ dl fínrifinn parmesanostur

2 ½ dl salsasósa

100 g beikon, fínsaxað

Hrærið saman fyrstu fimm hráefnunum. Bætið ½ dl af parmesanosti og 1 dl af Óðals Cheddar saman við. Hrærið og setjið í eldfast form.

Smyrjið salsasósunni yfir og sáldrið restinni af ostunum þar ofan á. Steikið beikonbitana og dreifið yfir ostinn. Bakið í 20 mínútur við 180°. Berið fram með nachos eða flögum að eigin vali. Ídýfuna er hægt að gera daginn áður og geyma í ísskáp.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!