Erna Sverrisdóttir
Ofnbakaður fiskur í ostasósu með makkarónum og salami, pestófylltur brauðhringur og bláberjakaka
22. apríl 2014

Ofnbakaður fiskur í ostasósu með makkarónum og salami, pestófylltur brauðhringur og bláberjakaka

Oft koma dagar þar sem ég tek mér góðan tíma í að elda mat. Allt í einu verða til fleiri en einn réttur. Þetta eru mínir hugleiðsludagar. Ein að bralla. Hér eru uppskriftir frá slíkum degi. Okkur á heimilinu þóttu réttirnir ljúffengir og þeir verða örugglega eldaðir aftur bráðlega. Fiskrétturinn er herramannsmatur. Dálítið eins og plokkfiskur í jólafötum. Ég setti rauðar piparflögur í hann, enda mikill aðdáandi þeirra. En ef fólk er ekki mikið fyrir sterkt, eins og t.d. krakkar, þá má alveg sleppa þeim eða draga úr magninu. Þetta er mjög barnvænn réttur enda inniheldur hann pasta, salami og ost. Góð leið til að fá krakka til að borða fisk. Makkarónur eru líka mín fortíðarþrá. Í mínum barndómi stóðu spaghetti og makkarónur frá Honig hjarta mínu næst þegar það kom að mat. Annað pasta var hreinlega ekki til.

Brauðið er auðvelt að gera og svo er það sannkallað prýði á hverju matarborði.  Ég átti enn bláber í frysti frá liðnu hausti og vildi nota þau. Úr varð þessi mjúka og gómsæta bláberjakaka. Í henni er nefnilega grísk jógúrt, sem gerir hana svona fjarskalega mjúka.

Ofnbakaður fiskur í ostasósu með makkarónum og salami
(fyrir 4-6)

1 box (250 g) kirsuberjatómatar
ólívuolía
sjávarsalt og svartur pipar
5 dl makkarónur
100 g ítölsk salami eða pepperoni, saxað
600 g þorskhnakkar eða annar hvítur fiskur, skorinn í stóra munnbita
2 msk smjör
2 msk hveiti
½ l matreiðslurjómi
1 ½ dl fínrifinn parmesanostur
¼ tsk rauðar piparflögur
múskat, eftir smekk
2 msk sítrónusafi
1 dl basillauf, gróft söxuð
100 g gratínostur

 

1. Stillið ofninn á 180°. Skerið tómatana í tvennt og raðið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Setjið örlitla ólívuolíu yfir og saltið og piprið. Bakið í 30 mínútur. Geymið.

2. Sjóðið makkarónurnar þar til næstum því soðið. Hellið vökvanum af og látið kalt renna á pastað þar til kælt. Látið vatnið renna vel af.

3. Smyrjið eldfast mót með smjöri og hellið makkarónunum á fatið. Blandið salami, ofnbökuðu tómötunum og fiskinum varlega saman við. Saltið og piprið.

4. Bræðið 2 msk. af smjöri í potti og blandið hveitinu saman við. Hrærið stöðugt. Þegar hveitiblandan sýður hellið matreiðslurjóma saman við smátt og smátt. Hrærið. Þegar sósan tekur að þykkna og sjóða takið af hitanum. Setjið piparflögur, parmesanost  og basil saman við. Smakkið til með múskati og sítrónusafa. Hellið yfir makkarónurnar og fiskinn. Sáldrið gratínosti yfir og  bakið i 30 mínútur.

Pestófylltur brauðhringur

Deig:
3 dl ylvolgt vatn
1 ½ tsk þurrger
½ tsk sykur
2 msk ólívuolía
1 tsk salt
hveiti eða spelt eins og þurfa þykir, u.þ.b. 7 dl

fylling:
100 g grænt eða rautt pestó
100 g gratínostur

skraut:
fræ að eigin vali, t.d. graskersfræ, sólkjarnafræ
sjávarsalt

 

1. Leysið gerið upp í vatninu og hrærið. Setjið sykur og ólívuolíu saman við. Látið og salt saman við smátt og smátt eða þar til þið eruð komin með óklístrað og meðfærilegt deig. Hnoðið stutta stund og látið hefast á hlýjum stað í klukkutíma.

2. Hnoið deigið létt og fletjið út í ferhyrning sem er u.þ.b. 30 X 40 cm. Smyrjið með pestói og sáldri ostinum yfir. Rúllið upp og látið endana mætast svo úr verði hringur. Leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír og látið hefast í 20-30 mínútur.

3. Stillið ofninn á 250°. Penslið brauðið með vatni og sáldrið fræjum og saltflögum yfir. Setjið neðarlega í ofninn og stillið hitann á 225°. Bakið í 8 mínútur. Lækkið þá hitann í 175° og bakið áfram í 20 mínútur.

Bláberjakaka

150 g smjör, bráðið
2 ½ dl sykur
2 egg
1 ¼ dl grísk jógúrt
1 msk fínrifinn sítrónubörkur
1 tsk vanilludropar
3 ¾ dl hveiti
1 tsk lyftiduft
125 g bláber, frosin eða fersk

skraut:
flórsykur

meðlæti:
létt þeyttur rjómi eða grísk jógúrt

 

1. Stillið ofninn á 160°. Takið fram skál og hrærið saman fyrstu sex hráefnin. Hrærið hveitið og lyftiduftið varlega saman við en ekki of lengi. Setjið bláberin gætilega saman við og hellið deiginu í formkökuform. Sléttið úr og bakið í rétt rúman klukkutíma eða þar til tilbúið.

2. Látið kólna á kökugrind og sáldrið flórsykri yfir.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!