Erna Sverrisdóttir
Ofnbakað ostafyllt cannelloni og flatbrauð með ostum og vínberjum
27. nóvember 2015

Ofnbakað ostafyllt cannelloni og flatbrauð með ostum og vínberjum

Til mín komu kærar vinkonur fyrir stuttu. Við gæddum okkur á þessum tveimur vermandi réttum. Svo ósköp seðjandi á köldum dimmum kvöldum.

Pastarétturinn er fljótlegur og hann má útbúa með góðum fyrirvara. Þess vegna daginn áður og geyma í kæli. Deigið fyrir flatbrauðið má einnig gera klárt og setja í ísskáp. En best er að baka það rétt áður en borðað er.

 

Ofnbakað cannelloni með ostafyllingu og tómatsósu

(fyrir 4-6)

Innihald:
1 dós grísk jógúrt

1 ½  dós sýrður rjómi 18%

1 ½ dl parmesanostur, fínrifinn

1 poki rifinn mozzarellaostur

1 egg

örlítið af rifnu múskati, má sleppa

2 dósir niðursoðnir saxaðir tómatar

250 g piccolotómatar eða kirsuberjatómatar, skornir í tvennt

2 hvítlauksrif, marin

2 ½ dl kjúklingasoð eða grænmetissoð eða sama magn af heitu vatni og ½ kjúklinga-/grænmetiskraftsteningur

1 msk ólífuolía

1 tsk sykur

1 tsk rauðar piparflögur

sjávarsalt og svartur pipar

10 ferskar lasanja plötur


 

Aðferð:
1. Stillið ofninn á 200°.

2. Blandið saman í skál grískri jógúrt, sýrðum rjóma, parmesanosti, ½ poka af mozzarellaosti, eggi og múskati. Hrærið og smakkið til með salti og pipar.

3. Setjið niðursoðna tómata, ferska tómata, hvítlauk, olíu, sykur, salt og pipar í frekar stórt eldfast form. Blandið vel saman.

4. Skiptið ostafyllingunni jafnt niður á lasagnaplöturnar og rúllið upp. Leggið rúllurnar ofan á tómatsósuna og sáldrið afganginum af rifna mozzarellostinum yfir. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til gullið.

 

Flatbrauð með hvítri ostasósu og vínberjum

(4 stk.)


Flatbrauð:

2 ½ dl hveiti

1 msk ferskt rósmarín, fínsaxað

½ tsk lyftiduft

½ tsk sjávarsalt

1 ¼ dl volgt vatn

1 ½ msk ólífuolía

 

Ostasósa:

1 ½ dl parmesanostur, fínrifinn

1 mozzarellakúla, rifin í höndum

4 msk sýrður rjómi 18%

vínber, eftir smekk,  skorin í tvennt

örlítil ólífuolía

 

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 200°.

2. Setjið allt sem á að fara í flatbrauðin í skál og hrærið. Bætið hveiti við ef þurfa þykir. Látið deigið hvíla í 15 mínútur.

3. Skiptið deiginu í 4 parta. Fletjið hvern part út langsum. Setjið á bökunarplötu klædda bökunarpappír.

4. Sáldrið parmesanosti og mozzarellaosti yfir brauðin. Dreifið klípum af sýrðum rjóma hist og her. Sáldrið vínberjum yfir og dreipið smá ólífuolíu ofan á. Bakið í u.þ.b. 15-20 mínútur.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!