Erna Sverrisdóttir
Nokkrar smáar sólskinsmarenskökur eða marens með heimagerðu lemon curd
26. júlí 2016

Nokkrar smáar sólskinsmarenskökur eða marens með heimagerðu lemon curd

Hér er alltaf sama vitleysan, rjómi, smjör og sykur. Þessa marensbotna gerði ég um daginn til að taka með mér í ferðalag með góðum mannskap. Kökurnar runnu ljúflega niður og ekki var verra að guli liturinn kallaðist á við sumar og sól. Það góða við marens er hann geymist vel og ýmsu er hægt að bæta á hann. Auk þess er hann ávallt fjöldatryllir. Kannski er það bara sér íslenskt fyrirbrigði. Ofan á botnana fór rjómi, vanilla, grísk jógúrt og lemon curd. Heimagerða lemon curdið er í sérstöku uppáhaldi þessa dagana. Það er ekkert að því að kaupa það tilbúið út úr búð. Sjálf sleppi ég bara sjaldan bauki í eldhúsinu. Afganginn af lemon curdinu nota ég á ristað súrdeigsbrauð, nýbakaðar amerískar pönnukökur eða bræði smá með Búraosti og ólífuolíu í ofni. 

Smáir marensbotnar með lemon curd

(8 stk.)

 

Marensbotnar:

4 eggjahvítur við stofuhita

3 dl sykur

1 ½ tsk edik

 

Krem:

4 dl rjómi

1 ½ dl grísk jógúrt

korn úr ½ vanillustöng

lemon curd, eftir smekk, heimatilbúið eða aðkeypt

 

Lemon curd (sítrónukrem) :

3 egg

2 eggjarauður

2 ½ dl sykur

fínrifinn börkur af 1 sítrónu

1 ¼ dl sítrónusafi

150 g smjör, kalt og skorið í litla bita

 

1. Stillið ofninn á 150°.

2. Stífþeytið eggjahvíturnar í hreinni hrærivélaskál. Gott er að strjúka innan úr henni með ediki eða sítrónusafa til að hreinsa alla fitu. Bætið sykrinum saman við. Eina matskeið í einu, smátt og smátt. Þegar allur sykurinn er kominn saman við hrærið þá áfram í u.þ.b. 8 mínútur. Setjið þá edikið saman við og hrærið áfram í 2 mínútur.

3. Leggið bökunarpappír á bökunarplötu og mótið átta marensbotna þar á. Setjið í ofninn og lækkið hitann um leið í 120°. Bakið í klukkutíma. Látið kökurnar síðan kólna í ofninum.

4. Setjið allt sem á að fara í lemon curdið nema smjörið í pott. Pískið saman og hitið á meðalhita þar til sykurinn er uppleystur. Minnkið aðeins hitann og setjið smjörbitana út í u.þ.b. 3 í einu og hrærið stöðugt í á meðan. Þetta tekur u.þ.b. 5 mínútur. Lemon curdið er tilbúð þegar það er orðið nokkuð þykkt. Sigtið og setjið í hreina krukku. Kælið í ísskáp í a.m.k.. klukkutíma.

5. Léttþeytið rjómann með vanillukornunum.  Bætið grískri jógúrt varlega saman við. Skiptið jafnt niður á marensbotnana. Toppið með smá lemon curd. Berið fram með restinni af lemon curd svo hver og einn geti bætt á sína köku, eftir smekk.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!