Erna Sverrisdóttir
Nauta chili í bjór og dökku súkkulaði með margvíslegu meðlæti og sumarleg berjaterta
01. júní 2015

Nauta chili í bjór og dökku súkkulaði með margvíslegu meðlæti og sumarleg berjaterta

Enn og aftur er ég á mexíkóskum slóðum í matargerð. Nú er það dýrindis chili með fullt af gómsætu meðlæti. Það er gaman að borða mexíkóskt. Litríkur, fallegur og seðjandi matur sem gaman er að njóta með öðrum. Að þessu sinni bakaði ég tortillakökur frá grunni en það er ekkert að því að stytta sér leið og kaupa þær tilbúnar. Eftirrétturinn er ákall á sumarið, berjaterta!

Nauta chili í bjór og dökku súkkulaði

(fyrir 4)

 

3 hvítlauksrif, tvö með hýði og eitt án

2 rauð chili, fræhreinsuð og skorin í fernt

¼ tsk cuminfræ

3 piparkorn

1 negull

⅔ dl vatn

½ tsk eplaedik

¼ tsk óreganó

hrásykur á hnífsoddi

 

500 g nautagúllas

½ tsk salt

2 msk repjuolía

½ laukur, saxaður

 

1 1/2 dl tómatpassata

1 ¼ dl vatn

1 ¾ dl bjór

100 g niðursoðinn jalapeno og helmingurinn af vökvanum úr dósinni

20 g dökkt súkkulaði

sjávarsalt og svartur pipar

 

1. Setjið óafhýddu hvítlauksrifin á heita pönnu og brúnið þar til þau verða mjúk. Takið þá hýðið af þeim. Á sömu pönnu brúnið chiliið. Setjið það svo í kalt vatn í 20 mínútur. Sigtið svo vatnið frá. Ristið cuminfræ, negul og piparkorn á pönnunni þar til ilmar.

2. Setjið hvítlauksrifin, (elduðu og óeldaða), chili og krydd í matvinnsluvél ásamt ⅔ dl af vatni, eplasíderediki, óreganókryddi og sykri. Maukið.

3. Saltið nautakjötsbitana og steikið þá í skömmtum og setjið til hliðar.

4. Steikið laukinn þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið maukuðu sósunni saman við og látið malla í 5 mínútur. Setjið 1 ¼ dl vatn út í ásamt bjór, tómatapassata, jalapeno og jalapenovökva. Látið suðuna koma upp og setjið þá kjötið saman við. Látið malla á vægum hita í 1 ½ - 2 klukkutíma undir loki. Að þeim tíma liðnum setjið súkkulaðið út í og smakkið til með salti og pipar. Ef sósan er ekki nógu þykk er gott að láta hana malla aðeins lengur án pottloks. Berið fram með meðlætinu.

Meðlæti:

sýrður rjómi, eftir smekk

saxaðir tómatar, eftir smekk

ferskt kóríander, eftir smekk

lárpera í sneiðum, eftir smekk

rifinn ostur, eftir smekk

tortillakökur, heimatilbúnar eða aðkeyptar

ananasmaissalsa

 

Tortillakökur:

5 dl hveiti

1 tsk sjávarsalt

¼ tsk lyftiduft

60 g smjör, skorið í litla bita

1 ½ dl ylvolgt vatn

 

1. Setjið fyrstu fjögur hráefnin í skál og hrærið. Hellið vatninu saman við og mótið deigkúlu með höndunum. Kannski þurfið þið meira vatn. Bætið því þá við smátt og smátt með matskeið.

2. Skiptið deiginu í 12-16 hluta, fer eftir hversu stórar þið viljið hafa kökurnar. Fletjið hvern hluta út, eins þunnt og hægt er. Þurrsteikið hvora hlið á pönnu þar til gullið.

 

Ananasmaissalsa:

2 ½ dl ferskur ananas skorinn í örsmá teninga, ( u.þ.b. ½ lítill ananas)

5 dl maískorn

1 skallottulaukur, fínsaxaður

3 msk saxað ferskt kóríander

3 msk límónusafi

½ tsk ólífuolía

salt og pipar

 

1. Blandið fyrstu sex hráefnunum saman. Smakkið til með salti og pipar.

-----

Berjaterta

 

Botn:

2 egg

1 ½ dl sykur

1 dl hrein jógúrt

2 dl hveiti

1 dl haframjöl

1 tsk lyftiduft

sjávarsalt á hnífsoddi

4 brasilíuhnetur, saxaðar

50 g smjör, brætt

 

Krem:

2 ½ dl rjómi

1 dl sýrður rjómi

2 msk flórsykur

2 ferskjur eða nektarínur, skornar í bita

2 dl jarðarber, skorin í bita

2 dl hindber

mynta, eftir smekk, má sleppa

 

1. Stillið ofninn á 200° og fituberið hringform sem er 24 cm í þvermál eða klæðið með böknunarpappír.

2. Pískið saman í hrærivél eggjum og sykri þar til létt og ljóst. Setjið jógúrt og rjóma saman við og hrærið.

3. Setjið hveiti, haframjöl, lyftiduft, salt og hnetur saman við með sleif. Hellið smjörinu saman við og hrærið. Hellið í bökunarformið og bakið neðarlega í 15-20 mínútur. Passið að ofbaka ekki botninn.

4. Þeytið rjóma, varist að ofþeyta. Setjið sýrðan rjóma og flórsykur saman við. Blandið ferskjubitum og berjum varlega saman við. Dreifið yfir tertubotninn. Skreytið með auka berjum og myntu.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!