Erna Sverrisdóttir
Mexíkósk kjúklingaídýfa fyrir páskafríið
06. apríl 2017

Mexíkósk kjúklingaídýfa fyrir páskafríið

Ég er stundum beðin af vinum og kunningjum um uppskriftir að partýnasli. Svo mér datt núna í hug að bjóða upp á þessa ljúffengu og matarmiklu ídýfu. Páskarnir framundan og margir bregða sér í sumarbústað í fríinu eða hafa það náðugt heima. Ídýfan er tilvalin fyrir hamingjustund á síðdegi eða á myrku síðkvöldi. Það er hægt að hafa alls kyns meðlæti með henni. Hér hef ég sýrðan rjóma og límónubáta, en mér finnst þeir ómissandi. Það mætti líka bæta við guacamole og salsasósu ef vill, ólífum og vorlauk. Þegar ég skrifa þetta, dettur mér í hug að það hefði ekki verið svo vitlaust að henda smá beikonkurli í réttinn...

 

Mexíkósk kjúklingaídýfa

(nasl fyrir 4-6)

 

2 vænar kjúklingabringur, skornar í smáa teninga

1 tsk. chipotle chilíkrydd eða venjulegt chilíkrydd (mér finnst bara reykta bragðið svo gott)

¼ tsk. cumin

¼ tsk. kóríanderkrydd

½ tsk. og ¼ tsk. sjávarsalt

¼ tsk. svartur pipar

½ dl hveiti

1 msk. og 1 msk. smjör

1 lítill jalapeno eða hálfur stór, fínsaxaður

1 hvítlauksrif fínsaxað

2 dl maísbaunir, ég nota frosnar og læt þær þiðna

safi af 1 límónu

½ dl tequila eða sama magn af vatni

200 g hreinn rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn

3 dl rifinn cheddarostur

ferskur kóríander eftir smekk, saxaður

 

Tillögur að meðlæti, allt eða eitthvað:

nachos eða tortillakökur, skornar í litla tígla

sýrður rjómi

límónubátar

salsasósa

guacamole

saxaðar ólífur

saxaður vorlaukur

 

1. Hitið ofninn í 200°.

2. Veltið kjúklingabitunum upp úr kryddunum og ½ tsk af salti og ¼ tsk pipar. Gott er að gera þetta í plastpoka. Setjið svo hveitið saman við og hristið saman.

3. Hitið 1 msk. af smjöri á pönnu og snöggsteikið kjúklingabitana. Færið yfir á disk. Hitið seinni matskeiðina af smjöri og mýkið jalapeno, hvítlauk og maísbaunir. Sáldrið ¼ tsk. af sjávarsalti yfir. Blandið kjúklingabitunum saman við. Hellið límónusafa og tequila/vatni yfir og látið sjóða upp.

4. Smyrjið meðalstórt eldfast mót með rjómaostinum. Dreifið kjúklingablöndunni þar ofan á. Sáldrið loks cheddarosti yfir og bakið í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gullinn. Setjið ferskan kóríander ofan á, eftir smekk. Berið fram með einhverju af ofangreindu meðlæti.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!