Erna Sverrisdóttir
Matarmiklar vöfflur með nautahakki og fetaosti og súkkulaðibaka með perum
29. júní 2016

Matarmiklar vöfflur með nautahakki og fetaosti og súkkulaðibaka með perum

Matarmiklar vöfflur með nautahakki og fetaosti og súkkulaðibaka með perum

Ég hef verið að prufa mig áfram með allskyns vöffludeig með allrahanda meðlæti. Vöfflur eru ekki bara góðar með sultu og rjóma! Það er um að gera að nota ímyndunaraflið og prufa sig áfram. Um daginn rakst ég á uppskrift í áströlsku blaði sem hér er komin, en breytt og staðfærð. Okkur heima þótti þetta sælkeramatur. Og svo auðvitað smá sætt í lokin með ómissandi rjómaslettu. Nema hvað!

Matarmiklar vöfflur með nautahakki og fetaosti

(4-6 stk.)

 

Deig:

3 ¾ dl hveiti

⅔ dl maisenamjöl

1 tsk lyftiduft

1 tsk sjávarsalt t.d. Maldon

3 ¾ dl hrein jógúrt

⅔ dl repjuolía

2 egg, aðskilin

100 g fetaostur, mulinn

1 krukka grillaður kúrbítur, saxaður eða u.þ.b. 150 g, t.d. frá Himneskt

¾ dl ferskt óreganó

 

Álegg:

500 g nautahakk

ólífuolía

1 msk harissamauk

2 msk tómatamauk

sjávarsalt og svartur pipar

2 ½ dl kjúklingasoð, eða sama magn af vatni og ½ kjúklingakraftsteningur

100 g fetaostur, mulinn

2 ½ dl ítölsk steinselja, söxuð

kirsuberjatómatar, eftir smekk

ferskt salat, eftir smekk

1.     Hrærið hveiti, maisenamjöli, lyftidufti, salti, jógúrt, repjuolíu og eggjarauðum saman. Hrærið þar til deigið er laust við kekki.

2.     Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við deigið.

3.     Setjið loks síðustu þrjú hráefnin saman við.

4.     Setjið tæpa 2 dl af deiginu í vöfflujárnið í hvert sinn og bakið.

5.     Steikið nautahakkið upp úr smá olíu. Bætið harissamauki og tómatamauki saman við. Hrærið. Saltið og piprið. Setjið kjúklingasoðið út í og látið malla í 5 mínútur.

6.     Setjið smá ferskt salat á hverja vöfflu, þar á eftir hakkið, fetaost, tómata, steinselju og pínu svartan pipar. Berið strax fram.

 

Súkkulaðibaka með perum

 

Botn:

2 ½ dl hveiti

1 tsk vanillusykur

100 g smjör

1 eggjarauða

 

Fylling:

100 g smjör

100 g súkkulaði, 60%

2 egg

1 dl sykur

1 msk koníak eða sama magn af appelsínusafa, ferskum

sjávarsalt á hnífsoddi

3 stórar perur, skornar í frekar þunnar sneiðar

létt þeyttur rjómi, eftir smekk

 

1.     Hrærið saman hveiti, vanillusykri og smjöri. Bætið eggjarauðu saman við. Hnoðið saman með höndunum.

2.     Fletjið deigið út og leggið í bökubotn eða lausbotna bökunarform sem er u.þ.b. 26 cm í þvermál. Látið bíða í ísskáp í 15 mínútur. Bakið síðan í 10 mínútur við 200°.

3.     Hrærið eggjum og sykri saman í hrærivél þar til létt og ljóst.

4.     Bræðið saman smjör og súkkulaði og hrærið saman við eggjablönduna. Bætið þá koníaki/appelsínusafa og salti saman við. Hrærið.

5.     Raðið perunum ofan á bökubotninn og hellið síðan deiginu yfir. Bakið í 20-25 mínútur.

6.     Látið kólna aðeins og berið fram með létt þeyttum rjóma.

 

 

 

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!