Erna Sverrisdóttir
Laxabitar undir blómkálsostaþaki og mjúk sítrónukaka með hnetusmjörskremi
07. október 2015

Laxabitar undir blómkálsostaþaki og mjúk sítrónukaka með hnetusmjörskremi

Blómkál og haust. Einn af uppáhaldsréttum mínum þegar ég var stelpa var réttur sem mamma gerði oft á hverju hausti. Gratínerað blómkál. Hún setti blómkál í eldfast mót og hellti yfir það ríkulegum skammti af smjöri og raspi og stundum osti. Algjört lostæti. Hér ætla ég hins vegar að bjóða upp á annan blómkálsrétt, ekki síðri, sem gleður bæði börn og fullorðna. Og auðvitað fylgir kaka með. Afar fljótleg og bragðgóð. Hnetusmjörskremið er hreint sælgæti.

Laxabitar undir blómkálsostaþaki

(fyrir 4)

 

400 g blómkál, bara blómhnapparnir

1 dl rifinn parmesanostur

2 dl rifinn mozzarellaostur í poka

1 púrrulaukur, skorinn í strimla

1 msk ólífuolía

600 lax, án roðs, skorinn í 3 cm bita

sjávarsalt og svartur pipar

1 dl rjómi

 

Skraut:

ferskt saxað dill, eftir smekk

1.     Sjóðið blómkálið þar til meyrt.

2.     Stillið ofninn á 220°.

3.     Maukið blómkálið með töfrasprota eða setjið í matvinnsluvél. Setjið parmesanostinn og helminginn af mozzarellaostinum saman við og hrærið saman. Saltið örlítið og piprið

4.     Takið fram eldfast form og raðið púrrulauksneiðunum þar á. Dreipið ólífuolíunni yfir laukinn. Saltið og piprið laxabitana og raðið þeim síðan ofan á laukinn. Hellið rjómanum yfir. Dreifið blómkálsmaukinu þar ofan á og toppið síðan með restinni af rifna mozzarellaostinum. Bakið í 20 mínútur. Látið standa í 10 mínútur áður en borið fram.

 

 

-----

Sítrónukaka með hentusmjörskremi

3 egg

2 ½ dl sykur

3 ½ dl hveiti

1 tsk lyftiduft

150 g smjör, brætt og kælt

fínrifinn börkur af einni sítrónu

 

Hnetusmjörskrem:

 

1 ¼ dl flórsykur

1 ¼ dl hnetusmjör

40 g smjör

½ tsk vanilludropar

½ dl rjómi

 

Meðlæti, má sleppa:

þeyttur rjómi með smá sýrópi

 

1.     Stillið ofninn á 175°.

2.     Hrærið saman eggjum og sykri þar til létt og ljóst. Setjið hin hráefnin saman við. Hrærið stutta stund. Setjið í formkökuform klætt bökunarpappír og bakið neðarlega í ofninum í u.þ.b. 30-40 mínútur. Látið kökuna kólna aðeins áður en þið setjið kremið á.

Krem, aðferð: 
Hrærið saman fyrstu fjórum hráefnunum sem eiga að fara í kremið þar til mjúkt og án kekkja. Setjið rjómann saman við og hrærið örstutt. Smyrjið ofan á kökuna. Gott að bera fram með þeyttum rjóma sem örlítið síróp hefur verið sett saman við.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!