Erna Sverrisdóttir
Lax með kaldri karrísósu og Crème brûlée skyrkaka
28. apríl 2017

Lax með kaldri karrísósu og Crème brûlée skyrkaka

Lax og annað góðgæti í einni í pönnu með kaldri karrísósu og Crème brûlée skyrkaka í glasi

Hvernig á ég að selja ykkur þessa ljúffengu rétti? Jú, þeir eru í hollari kantinum, fljótlegir og gasalega bragðgóðir. Heimilisfólkið féll fyrir þeim og réttirnir hafa verið eldaðir oftar en einu sinni. Laxaréttinn er hægt að töfra fram einn, tveir og bingó, prótein, kolvetni og fita. Allt í einni pönnu. Eftirrétturinn... Hann varð til í framhaldi af ást minni á creme brulee skyri og rjóma.

Lax og annað góðgæti í einni í pönnu með kaldri karrísósu

(fyrir 4)

 

8 meðalstórar kartöflur, skornar í teninga

700 g beinlaus og roðflettur lax, skorinn í bita

2 ½ msk. ólífuolía

2 msk. sítrónusafi

3 hvítlauksrif, marin

½ msk. dijon sinnep

2 msk. ítölsk steinselja, fínsöxuð

sjávarsalt og svartur pipar

½ sítróna, skorin í hálfar þunnar sneiðar

1 ½ dl fetaostur, mulinn

7 sólþurrkaðir tómatar, skornir í strimla

klettasalat eftir smekk

ítölsk steinselja, söxuð, eftir smekk, má sleppa

 

 

1. Stillið ofninn á 225°.

2. Setjið kartöfluteningana í ágætlega stórt eldfast fat. Hellið ½ msk. af ólífuolíu yfir. Saltið aðeins og piprið. Steikið í ofni í 20 mínútur.

3. Hrærið saman 2 msk. af ólífuolíu, sítrónusafa, hvítlauk, sinnepi og steinselju. Saltið og piprið. Hellið þessu síðan yfir laxabitana. Dreifið bitunum yfir kartöflurnar ásamt sítrónusneiðunum og látið aftur inn í ofn í 10 mínútur.

4. Að því loknu sáldrið þá sólþurrkuðum tómötum, fetaosti, klettasalati og ítalskri steinselju yfir. Berið strax fram með eða án kaldrar karrísósu.

Köld karrísósa:

 

1 msk. karrí

2 msk. sjóðandi vatn

1 ½ dl majónes

1 dl sýrður rjómi

2 litlar sýrðar gúrkur, fínsaxaðar

1 hvítlauksrif, marið

sjávarsalt og svartur pipar

hunang, eftir smekk

 

1.Hellið sjóðandi vatni yfir karríið og látið standa í 15 mínútur. Hrærið því svo saman við næstu fjögur hráefni. Smakkið til með salti, pipar og hunangi.

 

 

Crème brûlée skyrkaka í glasi

(fyrir 6)

 

16 ljósar oreo kökur, eða 150 g af öðru ljósu kremkexi

25 g smjör, brætt

2 dósir Ísey skyr með Crème brûlée

2 dl rjómi

4 msk. dulce de leche karamellusósa eða önnur karamellusósa

 

1. Myljið kexið t.d. í matvinnsluvél. Hellið smjörinu saman við og hrærið. Setjið í sex glös eða á einn stóran disk með köntum. Setjið smá til hliðar til þess að setja ofan á. Þrýstið niður og kælið þar til harðnar.

2. Létt þeytið rjómann og hrærið skyrið saman við ásamt 2 msk. af karamellusósu. Setjið ofan á botnana. Toppið með karamellusósu og restinni af kexmylsnunni. Kælið eða berið strax fram.

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!