Erna Sverrisdóttir
Lasagna með bleikju í sítrónu-ostasósu og dúnmjúk kókosterta með englakremi
01. desember 2014

Lasagna með bleikju í sítrónu-ostasósu og dúnmjúk kókosterta með englakremi

Hér er ég aftur á fiskislóð og býð upp á fiskilasagna með bleikju í dýrindis ostasósu. Fallegur og sérlega ljúfur réttur í jólalitum. Það gerir spínatið græna og tómatarnir rauðu í hvítri sósunni. Að þessu sinni notaði ég bleikju en það er líka hægt að nota lax eða annan fisk. Þetta er afar fljótlegur réttur og fjölskylduvænn, sem hentar öllum aldurshópum. Með bleikjulasagna bar ég fram ferskt salat með tómötum, basilíku og mozzarellaosti. Skvetti ólífuolíu, sítrónusafa, salti og pipar yfir. Foccaciabrauðhleifur fékk að fljóta með.

Kókostertan er mjög safarík og góð. Þvi stýrir sýrði rjóminn  Hún er vetrarleg að sjá, enda hvít, eins og nýfallinn jólasnjór.

 

Lasagna með bleikju og sítrónu-ostasósu

(fyrir 4)

450 g frosið spínat

6 tómatar, vel þroskaðir, skornir í sneiðar

500 g beinlaus og roðflett bleikjuflök eða lax, skorin í litla bita

250 g fersk lasagnablöð

150 g gratínostur

smjör

 

sítrónu-ostasósa:

2 msk smjör

2 ½ msk hveiti

5 dl matreiðslurjómi

200 g Mascarponeostur

2 tsk fínrifinn sítrónubörkur

2 msk sítrónusafi

sjávarsalt og svartur pipar

múskat, gjarnan rifin fersk múskatrót

 

 

1.     Stillið ofninn á 200°.

2.     Setjið spínatið í pott með vatni og látið sjóða í 2 mínútur. Hellið vatninu af og kreistið allan vökva úr. Saxið.

3.     Bræðið smjör í potti og setjið hveiti saman við, hrærið og látið sjóða. Bætið matreiðslurjóma saman við smátt og smátt. Hrærið stöðugt í. Þegar sósan sýður takið þá af hellunni og hrærið mascarponeosti saman við. Smakkið til með sítrónuberki, sítrónusafa, salti, pipar og múskati.

4.     Smyrjið eldfast mót með smá smjöri. Setjið lasagnablöð á botninn. Sáldrið helmingnum af spínatinu, helmingnum af tómatasneiðunum og fiskibitunum ofan á. Dreifið síðan ⅓ af sítrónu-ostasósunni yfir og endurtakið svo röðunina. Endið á sósu og gratínosti. Bakið í 30 mínútur. Gott er að láta lasagna stand í a.m.k. 10 mínútur áður en það er borið fram.

 

Dúnmjúk kókosterta með englakremi

175 g mjúkt smjör

2 ½ dl sykur

4 egg

1 tsk vanilludropar

3 dl hveiti

1 msk lyftiduft

sjávarsalt á hnífsoddi

⅔ dl kókosmjöl

3 msk sýrður rjómi við stofuhita

 

englakrem:

2 dl sykur

3 eggjahvítur

2 tsk vatn

 

skraut:

grófar kókosflögur, eftir smekk

 

meðlæti:

létt þeyttur rjómi

fersk ber

 

1.     Stillið ofninn á 180°.

2.     Hrærið saman í hrærivél smjöri og sykri. Bætið eggjum saman við, eitt í einu, hrærið vel á milli. Setjið vanillu saman við. Hrærið.

3.     Setjið þurrefnin út í með sleikju. Hrærið varlega saman en ekki of lengi. Bætið loks sýrða rjómanum saman við.

4.     Setjið í 3 hringform, klædd bökunarpappír, sem eru 20 cm í þvermál. Eða eitt dýpra form með sama þvermál. Þá þarf að skipta kökubotninum í þrennt eða tvennt þegar hann hefur kólnað. Bakið í 10-15 mínútur fyrir 3 hringform en 20-25 mínútur ef notað er eitt form. Best er þó að stinga prjóni/tannstöngli í kökuna til þess að sjá hvenær hún er tilbúin.

5.     Setjið sykur, eggjahvítur og vatn í glerskál sem þolir hita. Setjið skálina yfir pott með vatni. Kveikið undir og hrærið stöðugt í kreminu á meðan vatnið sýður undir á lágum hita. Þegar sykurblandan hefur náð 60° hita er hún sett í hreina hrærivélaskál. Hrærið þar til þið fáið þykkt og glansandi krem.

6.     Smyrjið botnana með smá kremi og leggið saman. Þekið síðan kökuna með kremi og sáldrið kókosflögum á topp og hliðar. Berið fram með léttþeyttum rjóma og jafnvel hindberjum.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!