Erna Sverrisdóttir
Kósýkvöld en ekki pizza - Mexíkóskur ofnréttur og lúnamjúk límónuterta
29. janúar 2014

Kósýkvöld en ekki pizza - Mexíkóskur ofnréttur og lúnamjúk límónuterta

Hér er boðið upp á ljúffengan og fljótlegan fjölskylduvænan rétt og köku í þokkabót.

Um helgar kýs strákurinn minn yfirleitt pizzu á góðu kvöldi, en stundum verður þessi góði mexíkóski réttur fyrir valinu. Eins og pizza þá fellur þessi réttur að smekk ungra og aldinna. Ekki skemmir fyrir að hann getur hjálpað til við matargerðina eins og þegar pizzugerð stendur yfir. Með réttinum er hægt að hafa tortillakökur, nachosflögur eða salatblöð fyrir þau sem ekki vilja brauðmeti. Allskyns meðlæti er gott með. Sýrður rjómi er ómissandi, eins ferskur límónusafi. Salsasósa og guacamole er líka gott til viðbótar ef villl. Rétturinn er einnig fyrirtaks partýréttur með nachosflögum. Hann má útbúa kvöldið áður og elda rétt áður enn hann er borinn fram.

 

Í réttinn nota ég rjómaost og keypti stórt box frá MS. Ég þurfti bara helminginn af innihaldinu í ofnréttinn svo mér þótti tilvalið að skella í eina góða köku og nota afganginn af rjómaostinum í kökukrem. Kakan helst í hendur við mexíkóska þemað enda bæði límónubörkur og límónusafi í köku og kremi. Í henni eru líka birkifræ sem gera það að verkum að kakan er lúnamjúk. Oftast ber ég fram þeyttan rjóma með henni, en það er ekki nauðsynlegt. Mér finnst bara rjómi svo góður. Ég hef það fyrir satt að vanilluís sé líka indæll með. 

Það má nota mascarponeost í kremið í staðinn fyrir rjómaost og rjóma.

Verði ykkur að góðu!

Mexíkóskur ofnréttur

(fyrir 4-6)

 

200 g rjómaostur

1 msk smjör

1 meðalstór laukur, saxaður

1 rauð paprika, söxuð

400 g gott nautahakk

1 pakki Tacco seasoning mix

1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar

2 hvítlauksrif, marin

1 tsk sykur

nokkrir dropar af tabascosósu, má sleppa eða nota varlega þegar börn eru annarsvegar!

sjávarsalt og svartur pipar, eftir smekk

100 g gratínostur

4 msk niðursoðið jalapeno, saxað

6 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar eða 10 cm bútur af blaðlauk, skorinn í þunnar sneiðar

svartar ólívur, eftir smekk og skornar í sneiðar

 

Tillögur að meðlæti:

ferskt salat

sýrður rjómi

guacamole

salsasósa

límónubátar

tortillakökur eða salatblöð eða nachosflögur

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stillti á 200°. Smurði botn á eldföstu móti með rjómaosti og lagði til hliðar. Síðan tók ég fram pönnu og mýkti lauk og papriku í smjöri. Setti svo nautahakkið saman við og steikti áfram. Þegar kjötið var gegnumsteikt sáldraði ég tacco kryddblöndunni yfir og hrærði í. Niðursoðnu tómatarnir, sykur, hvítlaukur, örlítil tabascosósa, salt og pipar fóru út á pönnuna. Þetta lét ég malla án loks í 10 mínútur á meðal hita eða þar til mest allur vökvi var uppgufaður. Þessu dreifði ég svo yfir rjómaostinn og fékk hjálp frá syninum við að sáldra osti, vorlauk, ólívum og jalapeno jafnt yfir. Þetta var bakað í 15-20 mínútur. Torillakökur voru hitaðar á þurri pönnu og skornar í þríhyrninga. Það mætti alveg eins nota heilar kökur og rúlla upp. Á sneiðarnar fór sýrður rjómi, ferskt salat, ofnrétturinn og límónusafi.

       
                                     Fersk límónukaka með ostakremi 

Innihald:

200 g sykur

200 mjúkt smjör

4 egg

200 g hveiti

2 tsk lyftiduft

2 msk birkifræ

fínrifinn börkur af 1 límónu

2 msk límónusafi

2 ½ msk nýmjólk eða rjómi

 

krem:

200 g rjómaostur og 1 dl rjómi eða 1 box mascarponeostur

fínrifinn börkur af 1 límónu

safi af 1 límónu

3-4 msk flórsykur

 

Skraut:

50 g hvítt súkkulaði, gjarnan með kókos, rifið

 

Ofninn var stilltur á 175°. Ég þeytti sykur og smjör saman í hrærivél og bætti síðan eggjum saman við, en setti bara eitt í einu og hrærði vel á milli. Þurrefnin fóru síðan saman við með sleif og síðan límónubörkurinn, límónusafinn og rjómi. Þessu hrærði ég líka saman með sleif. Gott er að hræra ekki of mikið né lengi. Ég setti deigið í sílikonform sem er 24 cm í þvermál og  bakaði í miðjum ofni í 25 mínútur. Það er alveg hægt að nota hefðbundið kökuform en þá er gott að klæða það með bökunarpappír. Kremigerðin var ofureinföld. Ég byrjaði á því að þeyta rjómann og setti hann svo til hliðar. Í sömu skál hrærði ég saman önnur hráefni og bætti loks rjómanum varlega saman við. Þegar kakan var orðin köld smurði ég hana með kreminu og fékk litla manninn til að rífa súkkulaðið yfir. Eitthvað af því ratað reyndar ofan í hann...

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!