Erna Sverrisdóttir
Kjúklingasalat með lárperusósu og Súkkulaðisprengjan Hekla
28. febrúar 2014

Kjúklingasalat með lárperusósu og Súkkulaðisprengjan Hekla

Grillaður tilbúinn kjúklingur er oft þrautalending á mínu heimili. Svona þegar hugmyndaflugið er í lágflugi og lítill tími til stefnu. Til þess að snúa því við er gráupplagt að töfra fram salat þar sem aðalatriðið er þessi dásamlega lárperusósa sem hér er teflt fram. Sósuna er nánast hægt að borða eina sér, ég get lofað því. Svo má líka nota hana með ýmsum öðrum réttum. Til að mynda með grilluðum fiski. Sósan er sérlaga góð með laxi, á grillaðan kjúkling og sem meðlæti með niðurskornu grænmeti. Lárperan í sósunni fer afar vel með tómötum og mozzarellaosti. Það er nefnilega eitthvað við þessa þrenningu sem er ómótstæðilegt. Þess vegna hef ég tómata og mozzarellaost í kjúklingasalatinu mínu. Gott er að bera salatið fram með súrdeigsbrauði og dýfa því í afgangsósu.

 

Kjúklingasalatið og sósan eru bæði lágkolvetnafæði, nema þegar ég freistast til að setja örlítið hlynsíróp á beikonið sem fer í salatið. Þá dreypi ég hlynsírópi yfir beikonsneiðar og baka síðan í ofni. Hrikalega gott!

 

Skrifandi um eitthvað gott þá langar mig að bjóða upp á Súkkulaðisprengjuna Heklu. Hún dregur nafn sitt af litnum og ekki síst botninum sem er búinn til úr oreokexi og minnir óneitanlega á hraun. Það var sonur minn sem kom með þessa líkingu á venjulegu vappi sínu þegar sætmeti verður til og hægt er að fá lánaða sleikju að loknu verki. Svo er kakan náttúrulega ferlega góð. Þessa köku er hægt að útbúa með góðum fyrirvara. Það er alltaf kostur ef maður þarf að vinna á undan sér. Kökuna má hæglega tvöfalda ef margir eru um hituna. Hér er hún ætluð sex til átta manns.

 

Hér mætti líka ef lítill tími er til undirbúnings, sleppa súkkulaðifyllingunni í kökunni. Skera i staðinn niður 3 til 4 banana í sneiðar. Velta þeim upp úr smá sítrónusafa og dreifa yfir botninn. Toppa svo með kreminu og bera fram með heitri súkkulaði- eða karmellusósu.

 

 

 

 

Kjúklingasalat með lárperusósu

(fyrir 4-6)

 

lárperusósa:

 

1 stór lárpera eða 2 minni

2 msk límónusafi

1 ¼ dl sýrður rjómi

2 ½ dl majónes

¾ dl laukur, saxaður

2 hvítlauksrif, söxuð

½  tsk Worcestershiresósa

1 væn tsk sjávarsalt

cayennepipar á hnífsoddi

 

salat:

 

1 vænn grillaður kjúklingur

12 beikonsneiðar

2 harðsoðin egg, skorin í báta

150 g blandað salat

1 box íslenskir piccolotómatar eða 1 box kirsuberjatómatar, skornir í tvennt

1 mozzarellakúla eða 100 g af fetaosti

1 box jarðarber, skorin í tvennt eða í sneiðar

2 msk ristaðar furuhnetur

 

 

 

1. Setjið allt sem á að fara í sósuna í matvinnsluvél og maukið, eða notið töfrasprota. Geymið.

2. Steikið beikonsneiðarnar, annaðhvort í ofni eða á pönnu. Setjið til hliðar.

3. Takið skinnið af kjúklingnum og losið kjötið frá beinum. Skerið í fallega bita.

4. Raðið á diska, á eitt stórt fat eða setjið í salatskál, salat, kjúklingabita, tómata, hnetur og ost. Raðið kjúklingabátum og beikonsneiðum ofan á. Setjið sósu yfir.

 

 

Súkkulaðisprengjan Hekla

(fyrir 6-8)

 

Botn:

 

1 kassi oreokex (u.þ.b. 200 g)

50 g smjör, brætt

 

súkkulaðifylling:

 

100 g síríussúkkulaði

100 g 70% súkkulaði

2 dl nýmjólk

1 ¼ dl rjómi

2 msk og 1 tsk púðursykur

2 ½ msk sykur

2 msk maisenamjöl

2 ½ msk viský, eða líkjör að eigin vali, eða appelsínusafi

2 eggjarauður

sjávarsalt á hnífsoddi

 

krem:

 

2 ½ dl rjómi

⅔ dl sýrður rjómi 18%

 

skraut:

 

rifið dökkt súkkulaði eða rifið hvítt súkkulaði eða kakóduft

 

 

1. Myljið oreokexið með bræddu smjöri í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Setjið í bökuform sem er 26 cm í þvermál eða í annað form sem tekur 7 ½ dl í rúmmál. Þrýstið mylsnunni niður og upp með börmunum. Setljið í kæli í 30 mínútur.

 

2. Brjótið súkkulaðið ofan í pott og hellið mjólk og rjóma yfir. Bræðið saman á meðalhita. Hrærið í og takið af hitanum þegar suðan er um það bil að koma upp.

 

3. Hrærið saman á meðan í hrærivélaskál, púðursykri, sykri, maisenamjöli, viskýi, eggjarauðum og salti. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og hrærið saman. Þvoið pottinn og hellið eggja-súkkulaðiblöndunni ofan í hreinan pottinn. Hitið á meðalhita. Hrærið stöðugt í þar til suðan er um það bil að koma upp og blandan er orðin þykk. Slökkvið undir pottinum og hrærið áfram í u.þ.b. mínútu. Takið af hitanum og kælið aðeins. Hellið síðan yfir oreokexbotninn. Setjið í kæli í a.m.k. 3 tíma eða lengur.

 

4. Setjið sýrðan rjóma og rjóma í hrærivélaskál og þeytið þar til stíft. Dreifið yfir kökuna og sáldrið súkkulaði eða kakó yfir.

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!