Erna Sverrisdóttir
Kjötbollur í ostasósu og bollukrans
08. mars 2017

Kjötbollur í ostasósu og bollukrans

Hér kemur ansi djúsí réttur sem á sannarlega rétt á sér á köldum vetrarkvöldum. Ekki síst eftir góða útivist í nöpru vetrarveðri. Satt best að segja þarfnast rétturinn engrar réttlætingar. Hann er fullkominn hvenær sem er!

Kjötbollur í ostasósu

(u.þ.b. 22 stk.)

 

1 ½ dl hvítt brauð, skorið í teninga

½ dl matreiðslurjómi

500 g nautahakk

1 tsk. fennelfræ

1 tsk þurrkað timían

1 egg

fínrifinn börkur af 1 sítrónu

sjávarsalt og svartur pipar

örlítið hveiti

smjör og olía til steikingar

 

Ostasósa:

1 msk. smjör

1 msk. hveiti

3 ½ dl matreiðslurjómi

2 ½ dl fínrifinn parmesean ostur

2 ½ dl rifinn mozzarella ostur í poka

1 ½ dl rifinn gratínostur í poka

sjávarsalt og svartur pipar

1. Setjið brauðið í stóra skál og hellið ½ dl af matreiðslurjóma yfir. Látið standa í 5 mínútur.

2. Myljið fennelfræin í morteli eða með sleif. Setjið út í skálina ásamt nautahakki, timíani, eggi og sítrónuberki. Blandið saman með höndunum. Smakkið til með salti og pipar. Mótið síðan bollur úr farsinu. Stærð fer eftir smekk.

3. Sáldrið örlitlu hveiti yfir bollurnar og steikið upp úr blöndu af ólífuolíu og smjöri. Setjið í eldfast mót.

4. Bætið 1 msk. af smjöri á pönnuna sem þið steiktuð kjötbollurnar á. Hrærið hveiti saman við og látið sjóða. Hellið matreiðslurjóma út í smátt og smátt og hrærið stöðugt í þar til sósan þykknar. Takið af hitanum og setjið parmesean ost saman við. Hrærið og smakkið til með salti og pipar. Hellið sósunni yfir bollurnar og sáldrið mozzarella- og gratínosti yfir. Bakið í ofni við 220° í 15-20 mínútur. Dreifið smá sultu yfir og berið fram með brauðbollum og afganginum af sultunni.

Hindberjasulta

 

3 dl frosin hindber

⅔ dl sykur

1 msk. eplasíderedik

 

1.Setjið hindber og sykur í pott á háum hita. Hrærið. Látið malla á meðal hita þegar sykurinn er bráðinn, í 10 mínútur eða svo. Setjið þá edikið saman við. Hrærið og látið kólna í skál eða krukku.

 

Bollukrans

(22 stk.)

 

2 dl ylvolgt vatn

2 dl nýmjólk

2 ½ tsk. þurrger

2 msk. sykur

1 tsk. salt

50 g smjör, brætt

2 egg, annað til penslunar

u.þ.b. 8-10 dl hveiti

 

1.Hrærið mjólk og vatn saman í skál. Setjið þurrger saman við. Hrærið þar til freyðir. Látið þá sykur, salt, 1 egg og brætt smjör (passa að það sé ekki of heitt) út í. Hrærið.

2.Setjið hveitið saman við smátt og smátt. Hrærið og hnoðið þar til þið hafið óklístrað deig. Þið gætuð þurft minna eða meira hveiti. Hnoðið í stutta stund. Leggið deigið aftur í skálina og breiðið hreint þvottastykki yfir og látið hefast á hlýjum stað í 40 mínútur.

3.Skiptið deiginu í 22 bita og mótið kúlur/bollur.

4.Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og setjið hringlaga eldfast mót í miðjuna. Gott er að mótið sé u.þ.b. 8-10 cm í þvermál. Raðið átta bollum í kringum mótið. Passið að þær snerti hvorki mótið né hver aðra. Raðið restinni af bollunum fyrir aftan þessar átta og gætið þess að þær komi ekki við hver aðra. Látið hefast í 20 mínútur. Penslið með þeyttu eggi og bakið í 15-20 mínútur við 200°.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!