Erna Sverrisdóttir
Kannski páskaterta
25. mars 2013

Kannski páskaterta

 

Ég endurnýjaði nýlega kynnin við ljúffenga rjómaostatertu. Fyrir nokkrum árum útbjó ég hana með reglulegu millibili. Svo kom eins og gefur að skilja ný kaka inn í líf mitt. Þannig hefur það alltaf verið. Um daginn var ég var beðin að sjá um eftirréttinn í matarboði í öðru húsi. Þá kom hún til mín aftur þessi dásamlega ostaterta sem sannarlega myndi sæma sér vel sem páskaterta. Kakan lætur lítið yfir sér, enda stílhrein! Hún er fersk og ekki mjög sæt, með hæfilegum keim af kókos og vanillu. Henni fylgir afar góð hindberjasósa, sem ein og sér er líka góð með súkkulaðikökum eða ís. Ostatertuna og sósuna er hægt að gera daginn áður en herlegheitin eru borin fram og það er oft kostur þegar mikið stendur til. Okkur er jú ráðlagt að dreifa álaginu. Ekki svo að skilja að þetta sé flókin vinna, þvert á móti. Bara ekki láta matarlímið fæla ykkur frá þessari indælu rjómaostatertu. 

Botn:

6 Digestivekexkökur með eða án súkkulaðis

2 dl kókosmjöl

50 g smjör við stofuhita

 

Fylling:

3 matarlímsblöð

1 vanillustöng, klofin í tvennt

3 dl rjómi

1 dl sykur

280 g rjómaostur

2 dl hreint jógúrt eða jógúrt með vanillubragði

 

Hindberjasósa:

225 g frosin hindber, en þiðin

4 msk flórsykur

2-4 msk  rjómi

 

Ég byrjaði á því að klæða lausbotna hringform með bökunarpappír. Ég notaði form sem var 24 cm í þvermál. Það er alveg hægt að nota fallegt eldfast form eða nota nokkur smá form. Síðan maukaði ég allt hráefnið sem fór í botninn saman með töfrasprota. Þrýsti því næst maukinu niður á botninn og aðeins upp á kantinn og setti í kæli. Ég léttþeytti 2 dl af rjóma og setti til hliðar. Hrærði síðan saman jógúrtið og rjómaostinn og blandaði þeytta rjómanum varlega saman við. Ég lagði matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatni og lét standa í 5 mínútur. Setti á meðan setti 1 dl af rjóma í pott ásamt vanillustönginni sem ég var búin að kljúfa í tvennt og sykur. Þetta lét ég sjóða saman í u.þ.b. 1 mínútu. Tók þá vanillustangirnar upp úr og skrapaði kornin úr þeim og setti þau út í heitan rjómann ásamt matarlímsblöðunum sem ég var búin að kreista allan vökva úr. Loks hellti ég volgri rjómablöndunni saman við rjómaostshræruna og hrærði varlega og hellti að lokum á botninn. Tertan er síðan geymd í kæli í a.m.k. 4 tíma. Sósuna tekur enga stund að gera. Öll hráefnin eru maukuð saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Gott er að smakka sósuna til með rjóma. Bæta við rjóma ef þurfa þykir. Ostatertan er síðan borin fram með hindberjasósunni og stundum léttþeyttum rjóma, af því mér finnst léttþeyttur rjómi ómissandi með öllum kökum og tertum.


 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!