Erna Sverrisdóttir
Jólalitir. Ljúffengur eftirréttur á aðventu
14. desember 2013

Jólalitir. Ljúffengur eftirréttur á aðventu

Ár hvert hittumst við nokkrar góðar vinkonur og útbúum saman jólakransa. Sumar hengja djúpgrænan krans á útidyrnar og aðrar leggja á leiði. Í raun er það bara ein okkar sem gerir alla kransana því hún er einfaldlega best. Við hinar stynjum en reynum okkar besta en köllum oft á hjálp. Öllum finnst að sjálfsögðu sinn krans flottastur. Þrátt fyrir keppnina er þetta samvera sem mér þykir ótrúlega vænt um og er orðin fastur liður í undirbúningi jólanna.

Matur er aldrei langt undan þegar hópurinn hittist. Oftast er hann í forgrunni. Að þessu sinni átti ég að sjá um eftirréttinn. Og hér er hann í jólalitunum, hvítur, rauður og grænn, ljúfur og léttur. Kókos-pannacotta með pistasíuhnetum, granataeplafræjum og hvítu súkkulaði. Rétturinn hefur allt með sér. Hann er góður, fljótlegur, fallegur, auðveldur og það er hægt að útbúa hann daginn áður. Gleðilega hátíð!

 

 

Kókos-pannacotta með pistasíuhnetum, granataeplafræjum og súkkulaðisnjó

(fyrir 4-6)

 

3 matarlímsblöð

1 vanillustöng, klofin og kornin skröpuð úr

3 dl rjómi

3 dl kókosmjólk (ekki létt)

1 dl flórsykur

 

pistasíuhnetur eftir smekk, saxaðar

fræ af 1 granataepli eða mulin hindber

hvítt súkkulaði eftir smekk, raspað

 

Ég byrja alltaf á því að leggja matarlímsblöðin í kalt vatn. Þau þurfa fimm mínútur. Ekki láta matarlímið hræða ykkur. Það er ekkert mál að nota það. Á meðan set ég flórsykur, rjóma, kókosmjólk, vanillukorn og klofnu stöngina í pott. Set á helluna, kveiki undir og hræri stöðugt í. Tek síðan pottinn af hellunni þegar suðan er um það bil að koma upp. Svo helli ég vatninu af matarlíminu og set það út í heita rjómablönduna og hræri ákaft með píski. Nú gýs upp dásamleg kókos- og vanillulykt. Ég hendi vanillustöngunum og helli blöndunnni í falleg glös. Set í kæli og geymi þar til stíft. Best er að gera þetta daginn áður eða snemma morguns. Áður en rétturinn er borinn fram skreyti ég glösin að vild, með pistasíuhnetum, granataeplafræjunum og vænum skammti af hvítu súkkulaði. Stundum set ég réttinn í litlar sultukrukkur eða smáar síldarkrukkur. og skreyti með jólalegum borða.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!