Erna Sverrisdóttir
Jóla ísterta með marengs og hindberjasósu
10. desember 2018

Jóla ísterta með marengs og hindberjasósu

Jóla ísterta með marengs og heitri hindberjasósu

Nú halla ég mér að breyskleikanum sem aldrei fyrr. Svo hér kemur verulega ljúfur eftirréttur. Tilvalinn á hátíðarborðið í desember. Uppfullur af árstíðarinnar syndum. Þetta er gömul uppskrift sem ég gerði einhvern tímann fyrir íslenskt matarblað fyrir mörgum árum. Mig minnir að ég hafi byggt hugmyndina á kökunni á annarri uppskrift sem ég fann úr skandinavísku matarblaði. Uppskrifin hefur aðeins breyst síðan ég gerði hana fyrst. En sem sagt, ístertan er ein af mínum ómissandi jólahefðum. Stundum nota ég Daim í ísinn og stundum Toblerone. Með kökunni ber ég fram heita og ferska hindberjasósu.  Satt best að segja er ístertan á bragðið eins og ein stór Sara. Það hljóta að vera góð meðmæli. Gleðileg jól!

Marengs ísterta með heitri hindberjasósu

Marengsbotn:

3 eggjahvítur

2 dl sykur

1 ½ dl hakkaðar möndlur

 

Ís:

3 eggjarauður

1 dl púðursykur

200 g Daim kurl eða sama magn af söxuðu Toblerone

1 dl volgt kaffi

3 dl rjómi frá Gott í matinn

 

Hindberjasósa:

5 dl frosin hindber

4 tsk. vanilludropar

1 dl sykur

 

Stillið ofninn á 150°. Klæðið með bökunarpappír botn á lausbotna hringlaga 24 cm bökunarformi.

Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykri saman við, smátt og smátt. Bætið möndlum varlega út í með sleif. Setjið marengsinn í formið og bakið í um 50-60 mínútur. Látið svo marengsbotninn kólna.

Þeytið eggjarauður og púðursykur létt og ljóst.

Blandið Daim/Toblerone saman við volgt kaffið og leggið til hliðar.

Þeytið rjómann og blandið svo eggjahrærunni og súkkulaðikaffinu varlega saman við. Hellið yfir marengsbotninn og sléttið úr. Setjið í frysti í a.m.k. 4 tíma eða eins lengi og vill.

Best er að taka ískökuna úr frysti 30 mínútum áður en hún er borin fram. Þá er gott að nota tímann og útbúa hindberjasósuna.

Setjið öll hráefnin sem eiga að fara í sósuna í pott. Látið suðuna koma upp. Hrærið og látið malla í um 4 mínútur.

Látið ístertuna á disk og berið fram með hindberjasósunni.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!