Erna Sverrisdóttir
21. september 2012

Ísbúi og haustið

Ísbúi er sannarlega uppáhalds osturinn minn. Hann kemur oft við sögu í matarlífi mínu. Einn og sér, biti hér og þar, kaldur, bræddur og glóðarsteiktur. Það skemmir heldur ekki fyrir að hann ilmar eins og alvöru ostur á að gera. Kannski svona óþægilega góð lykt.

Í eldhúsinu í gær rann Ísbúinn saman við haustið með nýju íslensku blómkáli og mascarponeosti, sem átti að fara í ostaköku, en það er önnur saga. Ég setti þetta þrennt á pizzu, ásamt fersku rósmaríni. Hefði alveg eins getað notað ferskt timian en ákvað að nota rósmaríngreinar sem ég átti í frysti. Útkoman var dásamleg.

Pizza með Ísbúa, mascarponeosti og blómkáli

Pizzadeig:

2 ½ dl ylvolgt vatn
1 msk þurrger
1 tsk Maldonsalt
1 tsk sykur
1 msk ólífuolía

Brauðhveiti eins og þurfa þykir eða heilhveiti og hveiti til helminga.

Álegg:

1 kg blómkál, skorið í lítil knippi
6 rósmaríngreinar
⅔ dl ólífuolía
Maldonsalt og svartur pipar
1 box mascarponeostur
250 gr. Ísbúi, skorinn í sneiðar með ostaskera

Tveir ostar í vinnuferli

Fyrst byrjaði ég á að kveikja á ofninum. Stillti hann á 200° C. Tók fram skál og hrærði saman vatni, þurrgeri, salti, sykri og ólífuolíu og lét freyða. Ég setti hveitið smátt og smátt út í eða þar til deigið var orðið mjúkt og óklístrað. Síðan hnoðaði ég það í stutta stund. Skipti í tvennt og lét hefast undir rökum klút í 30 mínútur. Á meðan snéri ég mér að blómkálinu. Setti hvíta og ferska blómkálsknúppana í eldfast mót. Skvetti ólífuolíu yfir. Saltaði ágætlega og pipraði. Lagði loks rósmaríngreinar yfir. Þetta hafði ég í ofninum í 15 mínútur. Næst sneiddi ég Ísbúann niður (og setti nokkrar sneiðar upp í mig). Ég penslaði bökunarpappír með ólífuolíu og flatti deigin tvö út í ferhyrning sem var u.þ.b. 20x30 cm. Ég nefni þetta mál bara svona til viðmiðunar. Það er alls ekki heilagt, mér fannst bara stærðin heppileg og formið fallegt. Að því búnu smurði ég mascarponeostinum á botnana, lagði blómkálið og rósmarínið þar ofan á. Toppaði síðan með Ísbúanum. Herlegheitin fóru inn í ofn í 20 mínútur og gerðu marga glaða. Bræddur Ísbúi og stökkt blómkál reyndist sérlega gott saman.

Pizzan á leið í ofninn

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!