Erna Sverrisdóttir
Hjartfólginn réttur eða bara ofnbakaðar kjúklingabringur með rjóma, vínberjum og Kalamata-ólívum
14. september 2013

Hjartfólginn réttur eða bara ofnbakaðar kjúklingabringur með rjóma, vínberjum og Kalamata-ólívum

Veðrið öskrar á gómsæta og hitaeiningaríka rétti yfir kertaljósi. Og þá læt ég góðar og gildar næringarleiðbeiningar liggja á milli hluta og dembi mér í rétti eins og þennan.  Matarreglur eru sannarlega ágætar, en allt á sinn tíma.

Það tók mig skamma stund að útbúa þennan rétt og ljúfur er hann í hauströkkrinu. Ég bar fram með honum hrísgrjón og gufusoðið spergilkál. Það mætti alveg eins töfra fram kartöflumús eða sjóða pasta.

 

Ofnbakaðar kjúklingabringur með rjóma, bræddum osti, vínberjum og ólívum

(fyrir 4)

4 kjúklingabringur

sjávarsalt og svartur pipar

smjör

2 skallottulaukar, saxaðir

2 ½ dl vínrauð vínber

2 ½ dl Kalamataólívur, steinlausar

1 msk ferskt rósmarín, fínsaxað

1 ½ dl hvítvín

1 dl kjúklingasoð eða sama magn af vatni og kjúklingakraftur eins og segir á leiðbeiningum

2 ½ dl rjómi eða matreiðslurjómi

100 g gratínostur
 


Ég byrjaði á því að kveikja á ofninum, stillti hann á 200°. Þá þerraði ég bringurnar með pappírsþurrku og kryddaði þær ríkulega með salti og pipar. Skellti smá smjörklípu á pönnu og steikti bringurnar gullnar báðum megin, lokaði þeim. Setti þær svo í eldfast mót. Svissaði laukinn, vínberin og ólívurnar í örstutta stund á sömu pönnu og dreifði síðan yfir kjúklingabringurnar. Ég hellti víni, kjúklingasoði og rjóma á pönnuna með rósmaríninu og lét aðeins sjóða niður í u.þ.b.10 mínútur. Þetta dásamlega soð fór síðan yfir kjúklingabringurnar og loks sáldraði ég ostinum yfir. Réttinn hafði ég inni í ofni í 15 mínútur eða þar til bringurnar voru tilbúnar. Í raun væri mjög gott að nota kjúklingaleggi eða kjúklingalæri í þennan rétt. Þá þyrfti bara að lengja eldunartímann um a.m.k. 30 mínútur.
 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!