Erna Sverrisdóttir
Heit ostaídýfa, ostafylltir hamborgarar og MS-ís með rommrjóma, chilisúkkulaðisósu og ristuðu hvítu súkkulaði
23. maí 2014

Heit ostaídýfa, ostafylltir hamborgarar og MS-ís með rommrjóma, chilisúkkulaðisósu og ristuðu hvítu súkkulaði

Við erum byrjuð að grilla. Eins og svo margir aðrir. Grill og sól, ljúf klisja, ekki satt? Svo einn sólríkan dag var sumarveisla hjá mér. Fyrst bauð ég upp á gasalegt gúmmelaði. Sjóðheita ostaídýfu með mexíkóskum flögum. Hún var fljót að klárast! Á meðan gestirnir úðuðu í sig forréttinn bjó ég til hamborgara þar sem mozzarellaostur og ferskar kryddjurtir léku lykilhlutverk.

Með hamborgurunum gerði ég tvennskonar sósur, sumarlegar og ljúfar. Önnur smá sæt og hin græn og væn. Sætkartöfluflögur vöktu mikla lukka og ruku út. Að lokum kláruðum við máltíðina með svakalegum eftirrétti. Hrúga af ljúffengum rjómaís með dásamlegu meðlæti…

Heit ostaídýfa með tequila

(fyrir 4)

½ msk ólívuolía

1 stór tómatur, kjarnhreinsaður og skorinn í litla teninga

1 jalapeno eða 1 lítið grænt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað

2 skallottulaukar, fínsaxaðir

sjávarsalt á hnífsoddi

1 ½ msk tequila eða sama magn af hvítvíni

3 ½ dl Gratínostur

ferskt kóríander eftir smekk, saxað

mexíkóskar flögur eða tortillur skornar í litla bita

 

1. Takið fram pott og hitið olíuna steikið tómatabitana, jalapenoið/chiliið og laukinn í u.þ.b. 5 mínútur á meðalhita eða þar til mjúkt.

2. Hellið víninu út í og hrærið saman þar til gufað upp.

3. Lækkið hitann undir pottinum og setjið ostinn saman við. Hrærið stöðugt þar til osturinn er bráðinn.

4. Setjið í skál og sáldrið kóríander yfir. Berið strax fram með flögum eða tortillabitum.

 

Mozzarellafylltir hamborgarar með myntu, jarðarberjachutney, jógúrtsósu og sætkartöfluflögum

(fyrir 4)


Hamborgarar:

500 g nautahakk eða lambahakk

3 litlir skallottulaukar, fínsaxaðir

2 msk mynta, fínsöxuð

2 msk ítölsk steinselja (eða önnur), fínsöxuð

sjávarsalt og svartur pipar

1 kúla mozzarellaostur, skorinn í fjóra jafna bita

8-12 beikonsneiðar

 

1. Blandið fyrstu fjóru hráefnunum saman. Saltið og piprið.

2. Myndið með höndunum 8 kúlur. Fletjið þær aðeins út og setjið 1 mozzarellabita í miðjuna á 4 kúlum. Leggið hinar 4 sneiðarnar yfir og lokið vandlega fyrir með því að þrýsta samskeytum saman.

3. Vefjið beikonsneiðunum utan um hamborgarana.

 

Jarðarberjachutney:

250 g jarðarber

1 msk hunang

2 tsk balsamikedik

3-4 msk  mynta, fínsöxuð

svartur pipar, eftir smekk

 

1. Setjið jarðarberin í skál og hakkið gróflega með gaffli. Bætið hinum hráefnunum saman við og hrærið varlega.

 

Jógúrtsósa:

2 dl grísk jógúrt

1 dl majónes

2 msk rjómi

4 msk mynta, fínsöxuð

3 msk kóríander, fínsaxað

1 vænt hvítlauksrif, marið

sjávarsalt og svartur pipar

 

1. Hrærið fyrstu sex hráefnin saman. Smakkið til með salti og pipar.

 

Sætkartöfluflögur

600 g sæt kartafla, skorin í örþunnar sneiðar, t.d. með mandólíni eða ostaskera

rúm 1 msk ólívuolía

1 ½ tsk sjávarsalt

 

1. Stillið ofninn á blástur og hitið í 210°.

2. Setjið kartöfluflögurnar á tvær bökunarplötur klæddar bökunarpappír.

3. Hellið ólívuolíu yfir og sáldrið salti ofan á.

4. Bakið í 20 mínútur.

 

Meðlæti:

4 hamborgarabrauð

ferskt salat

tómatar, skornir í sneiðar

1 lárpera, skorin í sneiðar

 

MS-rjómaís með rommrjóma, chilisúkkulaðisósu, jarðarberjum og ristuðu hvítu súkkulaði

(fyrir 4-6)

MS-rjómaís að eigin vali og magn eftir smekk

250 g jarðarber, skorin í tvennt eða heil

 

rommrjómi:

2 ½ dl rjómi

3 msk flórsykur

1 msk dökkt romm, má sleppa eða nota sama magn af appelsínusafa

½  tsk vanilludropar

 

1. Létt þeytið rjómann og bætið síðan flórsykri, rommi og vanilludropum saman við. Þeytið áfram stutta stund.

 

Chilisúkkulaðisósa:

2 dl rjómi

½ tsk kanill

½ - 1 tsk chiliduft

150 g frekar dökkt súkkulaði, gróft saxað

½ tsk vanilludropar

sjávarsalt á hnífsoddi

 

1. Setjið rjóma, kanil og chiliduft í pott og látið sjóða saman stutta stund.

2. Takið af hitanum og setjið súkkulaðið og vanilluna saman við. Hrærið.

 

Ristað hvítt súkkulaði:

50 g hvítt súkkulaði, rifið niður

 

1. Stillið ofninn á 170°.

2. Setjið súkkulaðið á bökunarplötu klædda bökunarpappír og bakið í 3 mínútur eða þar til gullið. Kælið og myljið síðan niður.

 

Berið ísinn fram með rommrjóma, jarðarberjum, súkkulaðisósu og hvítum súkkulaðiflögum eða raðið í skálar fyrir hvern og einn.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!