Erna Sverrisdóttir
Haustfiskur og klesst súkkulaðikaka
02. október 2017

Haustfiskur og klesst súkkulaðikaka

Hér legg ég til tvo veislurétti sem hægt er að reiða fram eldsnöggt. Hráefnalistinn er ekki sérlega langur en réttirnir eru samt saðsamir og ljúffengir. Ég notaði þorskhnakka í fiskréttinn en það væri vel hægt að nota þykkar löngusneiðar í staðinn. Ofan á súkkulaðikökuna setti ég rjómaostaglassúr og brómber. En það mætti vel nota hvaða ber sem er. Sem sagt, fljótlegt og gott í dagsins önn.

 

Beikonvafðir þorskhnakkabitar í eplaostasósu

(fyrir 4)

 

600 g þorskhnakki

12 beikonsneiðar

1 msk. ólífuolía

sjávarsalt og svartur pipar

2 ½ dl eplasafi

1 dl mascarponeostur (má líka nota rjóma)

ferskt timjan, eftir smekk

 

 

1. Skerið þorskhnakkann í 4 eða 8 bita. Stærð bitanna fer eftir smekk og eldunartíma. Saltið örlítið. Vefjið beikonsneiðunum utan um bitana.

2. Hitið olíu á pönnu og steikið fiskinn á öllum hliðum og piprið. Það á ekki að steikja fiskinn í gegn - bara þar til beikonið hefur aðeins brúnast. Færið fiskinn upp á eldfast fat.

3. Setjið eplasafa og mascarponeost/rjóma á sömu pönnu, látið suðuna koma upp, saltið og piprið og smakkið til með timjan. Hellið í eldfasta fatið.

4. Setjið í 240°heitan ofn og eldið áfram í u.þ.b. 12 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður.

 

Berið fram með hrísgrjónum, pasta, kartöflustöppu eða soðnum kartöflum.

 

Klesst súkkulaðikaka með rjómaostaglassúr og brómberjum (eða öðrum berjum)

 

100 g smjör

3 dl sykur

2 tsk. vanillusykur

2 egg

1 ½ dl hveiti

5 msk. kakó

salt á hnífsoddi

 

Rjómaostaglassúr:

1 box hreinn rjómaostur, 125 g við stofuhita

rúmlega 1 msk. agavesíróp eða annað síróp

1 ½ tsk vanillusykur

brómber, jarðarber, hindber eða bláber, eftir smekk

 

Meðlæti:

léttþeyttur rjómi

 

1. Bræðið smjörið í potti á lágum hita. Setjið hin hráefnin saman við eldsnöggt og hrærið vel. Setjið deigið í olíuborið bökunarform 22-24 cm í þvermál. Bakið í u.þ.b. 25 mínútur við 175°. Kælið.

2. Hrærið saman rjómaosti, sírópi og vanillusykri þar til blandan verður kekkjalaus. Smyrjið kökuna og skreytið með berjum. Berið fram með léttþeyttum rjóma.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!