Erna Sverrisdóttir
Hátíðarfiskur, fagurgræn baunastappa og gulrótarkaka með súkkulaði
31. október 2014

Hátíðarfiskur, fagurgræn baunastappa og gulrótarkaka með súkkulaði

Eftir að hafa dvalið á aðra viku í vellystingum í Bandaríkjunum var okkur farið að lengja eftir fiski. Og úr varð hátíðarfiskréttur að mínu mati. Stinnir þorskhnakkar, rjómi, ostur, sítróna og lítríkt grænmeti. Með réttinum hafði ég fagurgræna baunastöppu en sauð einnig hrísgrjón fyrir þá sem ekki voru að hugsa í lágkolvetnum eins og ég. Fjölskyldumeðlimir fengu sér bæði baunstöppu og hrísgrjón og létu vel af. Safarík gulrótarterta sem minnti okkur á Ameríkudaga innsiglaði að lokum máltíðina. Að þessu sinni notaði ég gríska jógúrt í kremið í staðinn fyrir rjómaost og sú nýbreyttni kom skemmtilega á óvart.

 

Ofnbakaður fiskur i rjómasósu með spínati, capers og tómötum

(fyrir 4)

1 laukur, skorinn í þunnar ræmur

1 hvítlaukur, fínsaxaður

1 msk smjör

250 g spínat

600 þorskhnakkastykki eða annar hvítur fiskur, skorin í bita

sjávarsalt og svartur pipar

2 box Piccolotómatar eða 400 g kirsuberjatómatar, skornir í þrennt

1 dl capers

2 dl rjómi eða matreiðslurjómi

1 teningur af fiskikrafti

1 msk hvítvínsedik

1 tsk fínrifinn sítrónubörkur

100 g gratínostur

 

     1.          Stillið ofninn á 200°.

     2.          Mýkið laukana í smjöri á pönnu og setjið síðan spínatið saman við. Látið í
                  eldfast mót. Leggið fiskistykkin ofan á. Saltið og piprið.

     3.          Dreifið tómötum og capers yfir.

     4.          Sjóðið saman á pönnu rjóma/matreiðslurjóma, fiskikraft, hvítvinsedik og
                  sítrónubörk í stutta stund. Hellið yfir réttinn og sáldrið siðan osti ofan á.                                           Bakið í 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er soðinn. Berið fram með                                               grænni baunastöppu og/eða hrísgrjónum. 

 

Græn baunastappa

(fyrir 4)

450 g frosnar grænar baunir

1 ½ dl rjómi eða matreiðslurjómi

sjávarsalt

svartur pipar

cayennepipar á hnífsoddi

 

     1.        Setjið frosnar baunir og rjóma i pott. Látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og
                látið malla undir loki í 5 mínútur.

     2.        Maukið með töfrasprota eða setjið í matreiðsluvél eða blandara. Kryddið og
                smakkið til með pipar og salti.

 

Safarík gulrótarkaka með súkkulaðibitum

300 g gulrætur, rifnar

3 egg

3 dl sykur

3 dl hveiti

2 tsk kanill

¼ tsk kardimommukrydd

1 tsk vanillusykur

1 msk lyftiduft

1 ½ dl repjuolía eða önnur grænmetisolía

100 g súkkulaðidropar, eða sama magn af söxuðu síriussúkkulaði

 

krem:

250 g grísk jógurt eða sama magn af rjómaosti við stofuhita

80 g mjúkt smjör

4 ½ dl flórsykur

1 tsk vanillusykur

rifinn börkur af 1 sítrónu

sjávarsalt á hnífsoddi

 

skraut:

saxaðar pekanhnetur eða valhnetur

meðlæti:

létt þeyttur rjómi

 

     1.          Stillið ofninn á 175°.

     2.          Þeytið egg og sykur létt og ljós. Blandið þurrefnunum saman við með sleif.
                  Blandið gulrótum, olíu og súkkulaði út í. Hellið í bökunarform sem er u.þ.b.
                  22X32 cm. Stærð skiptir ekki máli til eða frá. Bakið í 30-40 mínútur. Kælið.

     3.          Setjið allt sem á að fara í kremið í matvinnsluvél og maukið. Líka hægt að gera
                  með töfrasprota, blandara eða hrærivél. Hellið yfir kökuna og skreytið með
                  hnetum. Berið fram með létt þeyttum rjóma.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!