Erna Sverrisdóttir
Hátíðarbrunchréttur - Croque Madame ostavöfflur
23. mars 2016

Hátíðarbrunchréttur - Croque Madame ostavöfflur

Að þessu sinni langar mig að deila með ykkur ljúffengum, seðjandi og páskalegum brunchrétti. Croque Madame ostavöfflum.

Í deigið fer bæði jógúrt og cheddarostur. Hér setti ég hreina jógúrt en það er líka mjög gott að setja jógúrt með hnetu- og karamellubragði. Þessar vöfflur eru líka frábærar með sírópi og stökku beikoni. Í tilefni páskanna fannst mér hins vegar við hæfi að flagga gula litnum og eggjum. Svo hér koma því Croque Madame ostavöfflur!

Croque Madame ostavöfflur

(4 stk)

 

Ostavöfflur:

2 ½ dl hveiti

¼ tsk matarsódi

¼ tsk salt

2 dl hrein jógúrt eða jógúrt með hnetu- og karamellubragði

3 msk repjuolía eða sambærileg olía

1 egg

3 msk púðursykur

100 g cheddarostur, rifinn

 

Béchamel sósa:

2 msk smjör

2 msk hveiti

2 ½ dl matreiðslurjómi

múskat, eftir smekk

salt og pipar eftir smekk

 

Álegg:

4 stórar skinkusneiðar

8-16 aspasstönglar, fer eftir smekk

sítrónusafi

50 g cheddarostur, rifinn

4 egg

Aðferð:

1. Hrærið þurrefnunum saman sem eiga að fara í vöfflurnar. Blandið olíu og jógúrti saman við. Pískið saman þar til kekklaust.

2. Hrærið egg og púðursykur saman í hrærivél eða með handþeytara, þar til létt og ljóst. Blandið varlega saman við deigið ásamt ostinum. Látið deigið hvíla í a.m.k. 10 mínútur.

3. Setjið u.þ.b. 1 ½ dl af deiginu á heitt vöfflujárn og steikið þar til gullið. Deigið er fyrir 4 vöfflur. Látið rjúka úr vöfflunum á grind. Geymið.

4. Bræðið  smjör í potti. Setjið hveitið saman við og látið sjóða. Bætið matreiðslurjómanum saman við og pískið ákaft þar til sósan er þykk og laus við kekki. Látið sjóða á meðan þið hrærið í 2 mínútur. Takið af hellunni og smakkið til með múskati, salti og pipar. Setjið til hliðar.

5. Snyrtið aspasinn. Setjið vatn, smá sítrónusafa og salt í pott og látið suðuna koma upp. Látið aspasinn út í og sjóðið í 3 mínútur. Hellið vatninu af og setjið aspasinn strax í kalt vatn í smá stund. Þerrið og leggið til hliðar.

6. Stillið ofninn á grill og klæðið bökunarplötu með álpappír. Raðið skinkusneiðum ofan á vöfflurnar, svo aspasnum. Skiptið þá sósunni jafn yfir vöfflurnar og toppið loks með rifna ostinum. Setjið bökunarplötuna efst í ofninn og grillið vöfflurnar þar til osturinn er orðinn gullinn í u.þ.b. 3-5 mínútur. Fylgist vel með!

7. Spælið eggin á pönnu og setjið yfir grillaðar vöfflurnar. Berið strax fram með svörtum pipar og sítrónubátum ef vill.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!