Erna Sverrisdóttir
Hanastél í sumarbústaðnum, lax og ör-pavlovur með jarðarberjum
24. júní 2014

Hanastél í sumarbústaðnum, lax og ör-pavlovur með jarðarberjum

Mátti til með að deila með ykkur tveimur góðum réttum frá ný afstaðinni sumarbústaðaferð. Réttir sem ég bauð gestum uppá á sólríkum hanastélstíma við rætur eldfjalls. Tveir forréttir um fimmleytið sem endurspegla árstíðina, villtur lax úr Þjórsá og íslensk jarðarber frá Flúðum með tvenns konar rjóma afurðum. Annar ferskur en hinn sætur. Báðir sumarlegir og sérlega frambærilegir. Litríkir og ljúffengir.
Villtur lax ceviche með ferskri límónusósu og mexíkóskum flögum

(fyrir 6)

700 g villtur lax eða silungur, skorinn í litla teninga

1 ¾ dl þurrt hvítvín

safi af 1 límónu

safi af ½ sítrónu

safi ½ appelsínu

1 lítill laukur, skorinn í þunna strimla

1 hvítlauksrif, skorið í þunnar sneiðar

3 litlar lárperur, skornar í litla teninga

1 rauð paprika, skorin í litla teninga

1 grænt chilí, fínsaxað

handfylli af kóríander, saxað

sjávarsalt eftir smekk

 

1. Setjið hvítvín, laukana og safana af sítusávöxtunum í fat. Hrærið. Látið laxabitana saman við. Geymið í kæli í a.m.k. þrjá tíma eða yfir nótt. Ef þið geymið laxinn í leginum yfir nótt er gott að fjarlægja laukinn eftir átta tíma.

2. Hellið leginum af laxinum og pillið laukana í burtu.

3. Blandið laxinum varlega saman við grænmetið og smakkið til með sjávarsalti. Berið fram með límónusósu og mexíkóskum flögum.


Límónusósa:

1 dós sýrður rjómi 18 eða 36%

börkur af ½ - 1 límónu, fer eftir smekk

örlítill límónusafi

 

1. Hrærið upp í sýrða rjómanum og smakkið til með límónuberki og límónusafa.

 

 

Ör-pavlovur með léttþeyttum rjóma og jarðarberjum

(40-50 stk)

 

3 eggjahvítur við stofuhita

175 g sykur

örlítið hvítvínsedik

½ l rjómi

300-400 g jarðarber eða önnur ber

flórsykur

 

1. Stillið ofninn á 140°.

2. Þvoið hrærivélaskál að innan og spaða með örlitlu hvítvínsediki. Stífþeytið eggjahvítur.

3. Bætið sykri saman við, 1 msk í einu smátt og smátt. Hrærið þar til marensinn verður glansandi og þykkur.

4. Setjið marensinn í rjómasprautu eða notið tvær teskeiðar. Sprautið litla hringi (eða notið teskeiðar) með rjómaspautunni sem eru u.þ.b. 3 cm í þvermál á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Bakið í 40-45 mín. Látið kólna.

5. Léttþeytið rjómann. Sprautið rjóma eða notið skeiðar viða að setja rjóma á hverja köku. Skreytið með berjum og sáldrið flórsykri yfir.

 

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!