Erna Sverrisdóttir
Hakk og spagettí og flatbrauð með mozzarellaosti, tómötum, ólífum og basil
04. október 2016

Hakk og spagettí og flatbrauð með mozzarellaosti, tómötum, ólífum og basil

Flestum þykir ekta bolognese æði gott. Og kannski fleirum bara sitt hakk og spagettí. Enda margir tryggir sinni útfærslu. Oft hugsa ég af áfergju um hakk og spagettíútgáfu móðursystur minnar sem hún nefndi járnbrautarslys.

Á mínu heimili er stundum gert bolognese eftir kúnstarinnar reglum og því fylgir langur eldunartími. Hér er ég hins vegar með svona fljótlega en ekki klassíska útgáfu af því sem ég kýs að kalla hakk og spagettí. Það er ekki síður ljúffengt og fellur bæði börnum og fullorðnum í geð. Ég eldaði réttinn fyrir nokkrum dögum eins og svo oft áður. Og svo fannst mér ég verða að hafa nasl á undan og úr varð þetta prýðis flatbrauð sem hér er boðið upp á. Ítalskir fánalitir. Gæði og gleði.

Hakk-kássa

(fyrir 4)

 

2 msk ólífuolía

500 g nautahakk, eða 250 g svínahakk og 250 g nautahakk

8 beikonsneiðar, saxaðar

3 hvítlauksrif, fínsöxuð

1 msk oregano

¼ tsk rauðar piparflögur, má sleppa

1 laukur, saxaður smátt

2 gulrætur, fínsaxaðar

1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar

2 ½ dl rauðvín

2 kúfaðar msk tómatamauk

1 ½  dl rjómi eða matreiðslurjómi

örlítið múskat

1 dl rifinn cheddarostur

sjávarsalt og svartur pipar

 

Meðlæti:

 

500 g spaghetti, soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka

cheddarostur, rifinn niður og magn eftir smekk

 

1. Steikið hakkið og beikonið upp úr ólífuolíunni þar til allt hefur brúnast. Bætið þá kryddi, lauki, hvítlauki og gulrótum saman við.

2. Hellið víni, niðursoðnum tómötum og tómatamauki saman við. Hrærið. Saltið og piprið. Látið suðuna koma upp og látið malla án loks á lágum hita í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til vökvinn er að mestu horfinn. Setjið þá rjóman saman við og smakkið til með múskati, salti og pipar ef þurfa þykir. Látið malla aftur í 10 mínútur. Blandið þá ostinum saman við. Berið strax fram með soðnu spagettí og auka osti.

Flatbrauð með mozzarellaosti, tómötum, ólífum og basil

(4 stk.)

 

Flatbrauð:

3 dl hveiti

1 tsk sjávarsalt

1 tsk lyftiduft

1 ¼ dl pilsner eða bjór

 

Álegg:

6 msk extra virgin ólífuolía

8 grænar ólífur, skornar í þunnar sneiðar

1 stórt hvítlauksrif, fínsaxað

12 kokteiltómatar, saxaðir

1 poki eða tæplega 1 dós Mozzarellaostur með litlu kúlunum

Ferskt basil, saxað og eftir smekk

sjávarsalt og svartur pipar, eftir smekk

 

1. Blandið hveiti, salti og lyftidufti saman í skál. Hellið pilsner saman við og hrærið. Bætið hveiti við ef deigið er of klístrað. Hnoðið stutta stund. Setjið aftur í skálina og hyljið með plastfilmu. Látið standa í 15 mínútur. Skiptið þá deiginu í 4 parta og fletjið hvern út í hring sem er u.þ.b. 20 cm í þvermál. Steikið báðum megin við háán hita á þurri pönnu.

2. Hrærið varlega saman fyrstu 4 hráefnunum sem eiga að fara ofan á flatbrauðið. Skiptið því jafnt niður á brauðin. Dreifið síðan ostinum, rifnum eða heilum yfir ásamt fersku basil. Sáldrið loks salti og pipar yfir.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!