Erna Sverrisdóttir
Hægeldað lambalæri
28. nóvember 2013

Hægeldað lambalæri

 

 

Hægeldað lambalæri, fetaostur og hreint jógúrt

Helgar eru tími hægeldunar. Þægilegt að setja vænt kjöt í ofninn og láta það malla á meðan öðrum helgarhnöppum er hneppt. Kjötið verður dásamlega mjúkt. Um helgina fór í ofninn minn vænt lambalæri með lauk, hvítlauk og rósmarín. Þar mallaði það í 8 klukkutíma á vægum hita. Þegar það kom úr ofninum hrundi meyrt kjötið af beininu. Kjötbitunum var raðað á bakka og yfir það fór dýrindis græn kryddjurtasósa og fullt af fetaosti. Til hliðar var ég með jógúrtsósu frá Gwyneth Paltrow og sítrónur. Sælgæti!

 

 Hægeldað lambalæri með kryddjurtasósu, fetaosti og frískri jógúrt sósu

(fyirr 6-8)

1 stórt lambalæri

2 laukar, skornir í fernt

nokkrar rósmaríngreinar

2 hvítlaukar skornir í tvennt og 12 rif

ólívuolía

sjávarsalt og svartur pipar

 

kryddjurtasósa:

 1 stórt handfylli basilíka

1 stórt handfylli ítölsk blaðsteinselja

1 stórt handfylli mynta

1 tsk Dijon sinnep

1 msk sherry vínedik eða balsamik edik

1 msk kapers, skolað fyrst undir vatni

3 ansjósuflök

fínrifinn börkur og safi af 1 sítrónu

2 dl ólívuolía

 

frísk jógúrtsósa:

2 msk thainimauk

⅔ dl sjóðandi vatn

½ hvítlauksrif

1 ¼ dl hreint jógúrt

3 msk sítrónusafi

⅔ dl ólívuolía

sjávarsalt og svartur pipar

 

meðlæti:

klettasalat

1 fetakubbur

60 g ristaðar furuhnetur

sítrónubátar

 

Ég byrjaði á því að stilla ofninn á 150°. Ég fituhreinsaði lærið og skar í það tólf skurði hist og her. Ofan í þá fóru hvítlauksrif og rósmarín. Ég tók sex greinar og skar í tvennt og vafði utan um hvítlauksrifin. Lambalærið var síðan baðað í ólívuolíu, saltað og piprað vel. Í ofnskúffuna fóru laukarnir. Alls ekki taka utan af hvítlauknum, bara skera í tvennt. Ofan á laukana fóru svo nálar af tveimur rósmaríngreinum. Loks fór lambalærið ofan á  þetta fína laukbeð. Ég breiddi síðan álpappír yfir og festi lauslega. Nú hófst hinn langi eldunartími með tilheyrandi ilmi daglangt. Ég athugaði lærið mitt af og til. Ef það byrjar að þorna þá er gott að skvetta örlitlu vatni yfir, en ekki verra ef þið eigið afgangs hvítvín í staðinn. Ég gerði báðar sósurnar um leið og lærið fór inn. Jógúrtsósan fór í ísskápin en kryddsósan var geymd við stofuhita. Ákaflega þægilegt, því um kvöldið átti ég bara eftir að setja réttinn saman.

 

 

 

 


Sósurnar eru báðar fljótgerðar. Ég setti öll hráefnin sem áttu að fara í kryddjurtasósuna í blandarann minn og maukaði. Síðan smakkaði ég sósuna til eftir á með salti og pipar. Tilbúið. Þá var bara að þvo blandarann fyrir næstu sósu. Fyrst fór thainimaukið í hann og þá vatnið. Þetta maukaði ég saman, þar til slétt og fellt. Síðan fóru hin hráefnin saman við og hrært. Smakkað til með salti og pipar.

Um kvöldið þegar lærið var tilbúið og niður rifið raðaði ég klettasalati á stórt fat. Ofan á það fór lambakjötið, þá dreifði ég kryddjurtasósunni jafnt yfir og síðan muldi ég fetaostinn. Ég notaði ekki alveg allan kubbinn en hafði restina af honum til hliðar fyrir þá matargesti sem vildu meira. Loks sáldraði ég furuhnetum, smá sítrónuberki og saxaðri myntu yfir. Þá var rétturinn tilbúinn og borinn fram með jógúrtsósunni og sítrónubátum.

Þegar ég skoða myndina af réttinum sé ég að það hefði verið fallegt og ekki síður gott að hafa hægeldaða eða sólþurrkaða tómata með. Gott ef ekki nokkur jarðarber.

 

 

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!