Erna Sverrisdóttir
Grilluð og gómsæt horn
28. júní 2018

Grilluð og gómsæt horn

Í sumarbústaðnum um daginn urðu þessi ljúffengu horn til. Ég átti tilbúið pizzudeig og langaði að gera eitthvað gott og gómsætt nasl fyrir hamingjustund einn laugardag í rigningunni. Ég ákvað að gera tvennskonar fyllingar sem heppnuðust svona ljómandi vel.  Camembert fyllingin sló í gegn hjá fullorðnum og pizzafyllingin að sjálfsögðu hjá krökkunum. Ég grillaði hornin á útigrillinu en það má alveg eins baka þau í ofni. Eins mætti líka dreifa fyllingunum á útrúllað deigið og rúlla upp í brauð og baka eða grilla.

Grilluð Camembert- og eplahorn

(16 stk.)

1 rúlla tilbúið pizzadeig

Hreinn rjómaostur frá Gott í matinn

1 lítið epli, afhýtt og skorið í smáa bita

1 Dala Camembert, skorinn í smáa bita

1 msk. pekanhnetur, fínsaxaðar

Örlítið döðlusíróp eða hunang

 

Rúllið pizzadeigið út og skerið út 16 þríhyrninga. Setjið um 1 tsk. af rjómaosti þar sem þríhyrningurinn er breiðastur.

Dreifið eplabitum og osti á hvert horn, efst þar sem það er breiðast. Sáldrið hnetum jafnt yfir og setjið loks smá klessu af döðlusírópi eða hunangi yfir. Rúllið upp og grillið á olíupensluðu útigrilli á lágum hita þar til bökuð í gegn. Hornunum þarf að snúa við af og til. Hornin má líka baka í ofni við 180°. Leggið þau þá á bökunarplötu klædda bökunarpappír og bakið þar til gullin.

 

Grilluð pizzahorn

(16 stk.)

1 rúlla tilbúið pizzadeig

Hreinn rjómaostur frá Gott í matinn

½ tsk. pizzasósa á hvert horn

Pepperónísneiðar, saxaðar

Rifinn pizzaostur frá Gott í matinn

Oregano krydd

 

Rúllið pizzadeigið út og skerði út 16 þríhyrninga. Setjið um 1 tsk. af rjómaosti þar sem þríhyrningurinn er breiðastur. Látið pizzasósu ofan á, svo pepperóní og loks um ½ msk. af rifnum pizzaosti og sáldrið síðan örlitlu oregano yfir.

Rúllið upp og grillið á olíupensluðu útigrilli á lágum hita þar til bökuð í gegn. Hornunum þarf að snúa við af og til. Hornin má líka baka í ofni við 180°. Leggið þau þá á bökunarplötu klædda bökunarpappír og bakið þar til gullin.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!