Erna Sverrisdóttir
Grilldagur
28. júní 2013

Grilldagur

Mig langar til að deila með ykkur sérlega góðri uppskrift að grilluðu beinlausu lambakjöti sem ég krydda með sítrónuberki, oregano og rauðum pipar. Ég sneiði það örþunnt og set á stórt fat ásamt fersku salati ólívukryddjurtamauki, fetaosti  og furuhnetum.

Herlegheitin rata síðan ofan í pítur með ljúffengri rjómaostasósu, sem er gerð úr (eins og nafnið bendir til!) rjómaosti, grískri jógúrt og ferskum kryddjurtum. Svo er líka fínt að nota í staðinn sýrðan rjóma með graslauk og lauk úr Gott í matinn fjölskyldunni. Það má líka sleppa pítunum. Þá er kominn réttur sem fellur eins og flís við nýjustu matartískuna, lágkolvetna bylgjuna...

Mér finnst best að búa til mínar eigin pítur. Stundum á ég þær til í frysti. Það kemur fyrir að ég sýni fyrirhyggju og baka ýmislegt til að geyma og grípa í seinna. Hins vegar er ekkert að því að kaupa tilbúnar pítur úti í búð. Vinum mínum finnst ég oftast vilja hækka flækjustigið og það á kannski við í þessu pítubrasi mínu. Ég læt nú samt uppskrift að heimagerðum pítum fylgja með ef einhver skyldi vilja prófa.

 

 

Pítur fylltar með grilluðu  lambakjöti, fetaosti, ólívumauki og rjómaostasósu

500 g lambainnralæri eða lambafile án fitu
rifinn börkur af einni sítrónu og smá meira
1 tsk þurrkaðar rauðar chillíflögur
2 msk ferskt oregano, fínsaxað
1 msk sjávarsalt
1 msk ólívuolía
rúmur 1 dl góðar grænar ólívur, skolaðar og gróft saxaðar
2 msk kapers, skolað og gróft saxað
2 dl ítölsk steinselja, söxuð
2 msk fersk mynta, söxuð
3 msk ólívuolía
ferskt salat, magn eftir smekk
4 msk ristaðar furuhnetur
100 g fetakubbur, mulinn

pítubrauð:

3 ½ dl ilvolgt vatn
2 tsk þurrger
1 ½ tsk sjávarsalt
3 msk hveitiklíð
hveiti eins og þurfa þykir
rjómaostasósa með ferskum kryddjurtum:
125 g hreinn rjómaostur
6 msk grísk jógúrt
safi af ¼ af sítrónu og etv. meira
½ tsk rifinn sítrónubörkur
1 msk ítölsk steinselja, fínsöxuð
2 msk graslaukur, fínsaxaður
1 smátt hvítlauksrif, marið
sjávarsalt og svartur pipar

Ég byrjaði á að útbúa pítubrauðin því þau taka dálítinn tíma. Ekki sjálf vinnan heldur hefunartíminn. Ég leysti gerið upp í vatninu og setti síðan saltið og hveitiklíðið út í. Þá bæti ég hveitinu saman við smátt og smátt. Hrærði í á milli þangað til ég var komin með mjúkt og meðfærilegt deig. Ég hnoðaði það aðeins niður og lét deigið hefast í 30 mínútur. Síðan hnoðaði ég deigið á nýjan leik í stutta stund og skipti því niður í 14 bita. Mótaði kúlu úr hverjum sem ég flatti síðan út í hring sem var u.þ.b. 15 cm í þvermál. Þeir enduðu síðan á tveimur bökunarplötum klæddum bökunarpappír. Aftur tók við hefun og nú í 45 mínútur.

Að því loknu fóru pítubrauðin inn í 250° heitan ofn og ég bakaði þau í tæpar 5 mínútur. Þá gat ég farið að snúa mér að kjötinu. Að þessu sinni var ég með tvo væna innralærisbita. Fyrst byrjaði ég að því að setja rifinn börk af 1 sítrónu á disk ásamt rauðum piparflögum, salti og oregano. Síðan setti ég kjötið á diskinn og hellti 1 msk af ólívuolíu yfir það. Vellti því upp úr kryddblöndunni og þrýsti henni á. Lét svo kjötið hvíla á meðan ég útbjó rjómaostasósuna. Það tók ekki langan tíma.

Ég hrærði saman rjómaost og gríska jógúrt. Bætti sítrónusafa saman við, söxuðu kryddjurtunum og hvítlauknum. Ég smakkaði sósuna síðan til með sítrónuberki, salti og pipar. Loks var komið að því að útbúa ólívumaukið. Það var einfalt og tók enga stund. Ég hrærði bara saman ólívur, kapers og kryddjurtir og bætti loks ólívuolíunni saman við. Þá var allt tilbúið fyrir grillið.

Kjötið fór á heitt grillið svo það snarkaði í. Grilltíminn ræðst af smekk hvers og eins. Mér finnst betra að hafa kjötið nokkuð vel steikt en þó örlítið bleikt.  Það mætti alveg eins steikja lambainnanlærisvöðana á pönnu og setja síðan inn í ofn í 15-20 mínútur við 150°. Áður en ég sker kjötið, næfurþunnt, læt ég það hvíla  í 5 mínútur í álpappír.

 

Nú var allt að smella saman og bara samsetningin eftir. Ferskt salat rataði á fat, kjötið þar ofan á, þá ólívumaukið svo fetaostur, sem ég muldi yfir, furuhnetur þar ofan á og loks raspaði ég örlítinn sítrónubörk yfir.  Hver og einn setti svo í sína pítu. Mér finnst best að setja pínu kjöt og salat neðst í brauðið, þá smá sósu og svo meira af kjöti, sósu, kjöt, ef það kemst og toppa síðast með sósu.

           

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!