Erna Sverrisdóttir
Grillaður silungur og sumarlegt meðlæti
08. ágúst 2018

Grillaður silungur og sumarlegt meðlæti

Grillaður silungur, glóðað  grænmeti og frískandi sítrus kúskússalat

Áfram held ég að brasa og bauka í sveitinni minni. Mér finnst gríðarlega gaman að elda í litla eldhúsinu eða undir skyggninu á pallinum. Alveg sama þó að ég hafi ekki öll þægindin sem bíða heima. Það er stundum nautn í fyrirhöfninni. Líka gleði og jafnvel ró. Hér kemur nýjasta framleiðslan úr sveitasælunni. Miðjarðarhafið í íslenskri sveit.

Grillaður silungur

(fyrir 4)

2 skallottulaukar, fínsaxaðir

1 hvítlauksrif, fínsaxað

8 sólkysstir tómatar, smátt saxaðir

8 grænar ólífur, skornar í þunnar sneiðar

1 tsk. kapers, skolað og saxað

1 tsk. paprikukrydd

Safi og börkur af 1 sítrónu

800 g silungur í flökum eða lax

Salt og svartur pipar

100 g fetakubbur frá Gott í matinn, mulinn eða meira eftir smekk

Ólífuolía

Handfylli af ferskri saxaðri steinselju

 

Blandið sjö fyrstu hráefnunum saman í skál.

Leggið silungsflökin á álpappír. Saltið vel og piprið. Dreifið blöndunni yfir flökin og sáldrið svo fetaosti og steinselju yfir. Dreypið að lokum smá ólífuolíu yfir.

Grillið á heitu grilli eða bakið í ofni við 220° í um 10-15 mínútur.

 

Grillað grænmeti á teini

(fyrir 4)

2 paprikur, skornar í bita

1 lítill kúrbítur, skorinn langsum í örþunnar sneiðar

16 kokteiltómatar

Salt

Örlítið þurrkað timian

Ólífuolía

8 grillpinnar

 

Leggið grillpinnana í bleyti. Raðið síðan grænmetinu upp á. Saltið og dreypið ólífuolíu og smá timiani yfir. Grillið á heitu grilli þar til meyrt.

 

Kúskússalat með fetaosti og sítrussósu

(fyrir 4-6)

2 dl kúskús

2 dl sjóðandi vatn

Ögn af grænmetiskrafts teningi

Handfylli af saxaðri steinselju

Handfylli af söxuðu kóríander

50 g ristaðar furuhnetur

100 g mulinn fetakubbur eða meira eftir smekk

 

Sítrussósa

3 msk. ólífuolía

1 msk.  hvítvínsedik

1 msk. sítrónusafi

1 tsk. fínsöxuð niðursoðin sítróna

Salt og svartur pipar

Hunang

 

Byrjið á að útbúa salatsósuna. Pískið saman fyrstu fjórum hráefnunum. Smakkið til með hunangi, salti og pipar.

Setjið kúskús í skál. Setjið smá grænmetiskraft með. Hellið sjóðandi vatni yfir og hyljið síðan skálina með álpappír í 5 mínútur. Hrærið svo í með gaffli og hellið sítrussósunni saman við. Hrærið.

Blandið furuhnetum, kryddjurtum og fetamulningi saman við. Saltið og piprið ef þurfa þykir.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!