Erna Sverrisdóttir
Gómsætar bollakökur með eplum pekanhnetum og rjómaostakremi
10. nóvember 2017

Gómsætar bollakökur með eplum pekanhnetum og rjómaostakremi

Það verður að segjast eins og er. Þessar bollakökur eru hrikalega góðar. Fullar af hráefnum sem kallast á við árstíðina. Orkuríkar og seðjandi með dúnmjúku rjómaostakremi. Kökurnar runnu ljúflega niður með heitu súkkulaði og tei hér heima. Sennilega ekki síðri með góðum kaffibolla.

Ég fékk 16 stykki út úr uppskriftinni, enda notaði ég frekar lítil möffinsform. Hins vegar má ætla að 12 fáist ef brúkuð eru stærri form.

Bollakökur með eplum, trönuberjum, pekanhnetum og rjómaostakremi

(12-16 stk.)

 

 

120 g smjör, mjúkt

3 dl púðursykur

3 egg

4 ½ dl hveiti

2 tsk. lyftiduft

¼  tsk. kanill

1 ½ dl eplasafi

1 rautt epli, afhýtt, kjarnhreinsað og skorið í litla teninga

rúmlega 1 dl pekanhnetur, saxaðar

rúmlega 1 dl þurrkuð trönuber, gróft söxuð

 

rjómaostakrem:

 

250 g rjómaostur við stofuhita

1 ¼ dl púðursykur

 

Skraut:

pekanhnetur

hlynsíróp

  1. Stillið ofninn á 180°.
  2. Hrærið smjör og púðursykur saman í hrærivél, létt og ljóst. Bætið eggjum út í, eitt í einu og þeytið vel á milli.
  3. Setjið þurrefnin út í, hrærið örstutt og hellið epalsafanum saman við á meðan.
  4. Blandið eplabitum, pekanhnetum og trönuberjum út í með sleikju.
  5. Skiptið deiginu niður í möffinsform. (Ég spreyjaði formin sem ég notaði með olíuspreyi). Bakið í 15-20 mínútur eða þar til bakað í gegn. Látið kólna áður en kremið er sett á.
  6. Hrærið saman í vél rjómasosti og púðursykri þar til kremið verður mjúkt og áferðarfallegt. Smyrjið eða sprautið á möffinskökurnar. Skreytið með pekanhnetum og dreypið smá hlynsýrópi yfir.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!