Erna Sverrisdóttir
Fullkominn helgarréttur
28. janúar 2015

Fullkominn helgarréttur

Hér er boðið upp á dúnmjúkar ostafylltar kjúklingabringur, kartöflustöppu með sveppum, dijonsinnepssósu og afar bragðgóðar súkkulaðimöffins með ostakökufyllingu. Tilvalinn helgarréttur. Fyllingin í kjúklingabringunum og eplasafinn sem þær eru bakaðar í gera þær dásamlega mjúkar og safaríkar. Eftirrétturinn er ljúfur og fljótlegur og ekki síðri með þrjú kaffinu. Kökurnar hef ég gert oftar en 10 sínnum en uppskriftina fékk ég einhvern tímann úr sænsku matarblaði.
-----

  
 

Kjúklingabringur fylltar með fetaosti og sýrðum rjóma og ofnbakaðar í eplasafa
(fyrir 4)


100 g fetakubbur
1 dl sýrður rjómi, hreinn eða með graslauk og hvítlauk
1 tsk timían
4 kjúklingabringur
salt og svartur pipar
8 hráskinkusneiðar
tannstönglar eða rúllupylsuband
1 sítróna, skorin í átta sneiðar
1 dl eplasafi
2 msk ólífuolía
2 msk balsamikedik
2 msk hunang

 

1.     Stillið ofninn á 200°.

2.     Stappið saman fetaosti, sýrðum rjóma og timíani.

3.     Skerið djúpa vasa í kjúklingabringurnar, þerrið þær, saltið og piprið. Passið að salta ekki of mikið því skinkan og osturinn geta verið sölt.

4.     Setjið fyllinguna jafnt í hvern vasa. Vefjið tveimur hráskinkusneiðum utan um hverja bringu og lokið með tannstönglum eða notið rúllupylsuband. Raðið tveimur sítrónusneiðum ofan á hverja bringu.

5.     Takið fram eldfast fat og hellið í eplasafanum. Raðið kjúklingabringunum ofan í.

6.     Pískið saman balsamikediki, ólífuolíu og hunangi og hellið yfir bringurnar.

7.     Bakið í 20-25 mínútur eða þar til bringurnar eru eldaðar í gegn.

8.     Látið standa stutta stund. Skerið í sneiðar og hellið safanum úr fatinu yfir. Berið fram með kartöflustöppu og dijonsinnepssósu.
Kartöflustappa með sýrðum rjóma, sveppum og parmesanosti

(fyrir 4-6)

 

1 kg kartöflur, skrældar og skornar í bita
200 g sveppir , t.d. kastaníusveppir, gróft saxaðir
2 skallottulaukar, fínsaxaðir
1 msk smjör
2 dl sýrður rjómi
½ dl parmesanostur, fínrifinn
salt og svartur pipar

 

1.     Sjóðið kartöflurnar í léttsöltu vatni þar til meyrar. Hellið vatninu af og setjið kartöflurnar aftur í pottinn og á helluna í smá stund, eða þar til allur vökvi hefur gufað upp. Stappið.

2.     Steikið lauk og sveppi í smjöri og setjið saman við kartöflurnar.

3.     Hrærið sýrðum rjóma og parmesanosti saman við. Smakkið til með pipar og salti.

 

Dijonsinnepssósa
(fyrir 4)

 

1 skallottulaukur, fínsaxaður
2 msk smjör
2 msk hveiti
2 dl vatn
2 dl rjómi
2 msk niðursoðinn kjúklingakraftur
2 dl hvítvín
1 ½ msk dijonsinnep
salt og svartur pipar

 

1.     Bræðið smjör í potti og steikið laukinn. Sáldrið hveitinu yfir. Hrærið. Setjið vatn, rjóma og kjúklingakraft saman við og pískið. Látið malla í 5 mínútur.

2.     Setjið þá hvítvín og dijonsinnep saman við og látið suðuna koma upp og hitið í smá stund.

3.     Smakkið til með salti og pipar.

-----

Súkkulaðimöffins með ostakökufyllingu
(12-14 stk)
 

150 g smjör
1 dl kakó
½ dl hreint jógúrt
3 egg
2 dl sykur
1 msk vanillusykur
2 ½ dl hveiti
1 tsk lyftiduft


Ostakökufylling:

1 eggjarauða
150 g rjómaostur
3 msk flórsykur

 

1.     Stillið ofninn á 170°.

2.     Bræðið smjörið og pískið kakóið saman við. Látið kólna aðeins og hrærið jógúrtinu saman við.

3.     Þeytið saman í hrærivél, eggjum, sykri og vanillusykri þar til létt og ljóst.

4.     Bætið kakó-smjörblöndunni saman við. Hrærið.

5.     Látið hveiti og lyftiduft út í og blandið saman í stutta stund.

6.     Skiptið deiginu niður á möffinsform, og fyllið þau u.þ.b. ⅔ .

7.     Hrærið saman öllu sem fer í osktakökufyllinguna. Setjið yfir súkkulaðideigið og notið gaffal til að blanda varlega saman við súkkulaðideigið, svo úr verði fallegt mynstur.

Bakið í 20 mínútur. Gott með létt þeyttum rjóma eða eitt og sér.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!