Erna Sverrisdóttir
Fljótlegar kjötbollur í rjóma-tómatsósu og súkkulaðimús í tveimur lögum
26. febrúar 2015

Fljótlegar kjötbollur í rjóma-tómatsósu og súkkulaðimús í tveimur lögum

Mig langar að deila með ykkur tveimur afar fljótlegum og fjölskylduvænum uppskriftum. Annars vegar kjötbollum sem á mínu heimili eru kallaðar pizzabollur og hins vegar dásamleg súkkulaðimús sem er gerð úr dökku og ljósu súkkulaði. Réttirnir eru mjög sniðugir í matarboðum þar sem börn og fullorðnir koma saman. Matur sem kætir og fyllir alla. Umvefjandi á köldum vetrarkvöldum.

Ég gríp oft til þessarar tvennu þegar von er á barnafjölskyldum í heimsókn. Ekki skemmir fyrir hversu stuttan tíma það tekur að útbúa réttina og svo má líka gera þá með góðum fyrirvara. Auk þess geta börnin hjálpað til við kjötbollugerðina. Þeim þykir gaman og gott að móta kúlur úr mjúkum efnivið.

Súkkulaðimúsin er líka tilvalin sem kökukrem á súkkulaðikökubotn eða marenstertubotn.

-----

Kjötbollur í rjóma-tómatsósu með spagettí

(fyrir 4)

 

2 hvítar formbrauðsneiðar

¾ dl matreiðslurjómi eða rjómi

500 g nautahakk

fínrifinn börkur af einni sítrónu

4 msk parmesanostur

1 msk þurrkað oregano

½ msk sjávarsalt

½ tsk svartur pipar

ólífuolía og smjör

 

Sósa:

1 laukur, fínsaxaður

2 hvítlauksrif, marin

½ kjúklingakraftsteningur, mulinn

8 dl tómatpassata

2 ½ dl matreiðslurjómi eða rjómi

4 msk tómatpúrra

handfylli af ferskri basilíku, gróf saxaðri

sjávarsalt og svartur pipar

500 g spagetti

 

Meðlæti:

Fínrifinn parmesanostur eða annar rifinn bragðsterkur ostur

 

Aðferð:

1. Setjið formbrauðsneiðarnar í stóra skál og hellið rjómanum yfir. Látið þær sjúga vökvann í sig.

2. Setjið hakk, sítrónubörk, óreganó, parmesanost, salt og pipar saman við. Blandið saman með höndunum. Mótið kjötbollur með höndunum. Stærð fer eftir smekk. Mér finnst best að hafa þær á stærð við borðtenniskúlur.

3. Hitið smá olíu og smjör á pönnu og steikið bollurnar í skömmtum. Geymið. Setjið smá meiri olíu og smjör á pönnuna og mýkið laukana í u.þ.b. 5 mínútur. Setjið kjúklingakraftsteninginn saman við. Hellið tómatpassata, rjóma, tómatpúrru og basilíku út á pönnuna. Hrærið og látið sjóða í 2 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Setjið loks bollurnar út í sósuna og látið malla á vægum hita undir loki í 10 mínútur.

4. Sjóðið á meðan spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á pakka.

5. Berið kjötbollurnar fram með spagettí og auka parmesanosti eða öðrum rfnum osti.

-----

Súkkulaðimús í tveimur lögum

(4-6 glös)

 

Dökk súkkulaðimús:

100 g dökkt súkkulaði

2 msk púðursykur

2 msk rjómi

1 ½ dl rjómi

 

Ljós súkkulaðimús:

100 g mjólkursúkkulaði

2 msk púðursykur

2 msk rjómi

1 ½ dl rjómi

 

Meðlæti: 

Fersk ber, má sleppa

 

Aðferð:

1. Byrjið á dökku súkkulaðimúsinni. Bræðið saman í potti á lægsta hita eða setjið í örbylgjuofn súkkulaði, púðursykur og 2 msk af rjóma. Látið kólna aðeins.

2. Létt þeytið 1 ½ dl af rjóma og setjið síðan súkkulaðiblönduna út í. Þeytið varlega saman.

3. Hellið í glös eða skálar og setjið í kæli á meðan þið útbúið ljósu músina.

4. Farið nákvæmlega eins að við gerð ljósu súkkulaðimúsarinnar og dökku. Setjið hana síðan ofan á dökku músina. Geymið í kæli í a.m.k. klukkutíma.

5. Berið fram kalda og með berjum ef vill.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!