Erna Sverrisdóttir
Fjöldatryllir eða bara bananakaka með karamellu
18. nóvember 2015

Fjöldatryllir eða bara bananakaka með karamellu

Um daginn var okkur boðið í skemmtilegt matarboð. Ég ákvað að koma með eftirrétt sem ég vissi að myndi slá í gegn, enda gestgjafarnir annálaðir sælkerar og áhugafólk um gómsæta eftirrétti. Hér er því uppskriftin að þessari hrikalegu nammibombu og fjöldatrylli. Dýsæt og örlítið sölt, sem kallar á létt þeyttan rjóma og samviskuleysi!

Bananakaka með karamellu

 

150 g smjör, mjúkt

2 ½ dl sykur

1 ¼ dl púðursykur

3 egg

5 dl hveiti

2 tsk lyftiduft

1 tsk kanill

1 dós sýrður rjómi 18%

3 ½ dl stappaðir bananar

 

Karamella:

100 g smjör

2 dl púðursykur

1 ¼ bökunarsíróp

sjávarsalt á hnífsoddi

2 ½ dl rjómi

 

Meðlæti:

létt þeyttur rjómi eftir smekk

Aðferð:
 

1. Stillið ofninn á 180°.

2. Hrærið smjör, sykur og púðursykur í hrærivél þar til létt og ljóst.

3. Bætið eggjunum saman við, eitt í einu. Hrærið vel á milli.

4. Setjið hveiti, lyftiduft og kanil saman við með sleikju. Bætið sýrðum rjóma og bönunum út í. Blandið varlega saman.

5. Fituberið hringlaga kökuform og setjið deigið í. Bakið í 40-50 mínútur.

6. Setjið allt sem á að fara í karamelluna í pott. Hitið á meðal hita. Látið suðuna koma upp og látið malla á vægum hita í rúmar 10 mínútur eða þar til karamellan hefur þykknað. Látið karamelluna kólna við stofuhita. Hellið þá yfir kökuna. Berið fram með létt þeyttum rjóma.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!