Erna Sverrisdóttir
Fiskur í einum grænum en samt í sparifötum
28. nóvember 2012

Fiskur í einum grænum en samt í sparifötum

Fiskur í einum grænum en samt í sparifötum

Ég gróf upp gamlan uppáhalds fiskrétt á dögunum og dubbaði upp. Gamla útgáfan hafði fallið í gleymskunnar dá, sennilega út af ofnotkun. Stundum fæ ég nefnilega æði fyrir ákveðnum rétti og vil helst sjá hann á mínum borðum einu sinni í viku. Eitt mánudagskvöld fyrir skömmu kom þessi fiskréttur til mín á ný þegar ég átti afganga af baguette frá sunnudagsmatnum. Áður en ég vissi af varð til nýr réttur á gömlum grunni. Þetta er ofurauðveldur og fljótlegur réttur. Hann fellur í kramið hjá öllum aldurshópum, enda bragðið ljúffengt og heimilislegt og án framandleika. Stundum vill maður bara einfaldleikann.

Innihald:
600 g hvítur stífur fiskur, skorinn í bita
sjávarsalt og svartur pipar
70 g spínat, gróft saxað
3 dl matreiðslurjómi
rúmlega 1 dl paprikumauk, t.d. Ajvar eða grillaðar, maukaðar paprikur
30 g smjör
½ baguette, skorin í litla bita eða 3 stórar súrdeigsbrauðsneiðar, skornar í litla bita
1 dl rifinn gratínostur

Ofninn var stilltur á 180° C. Fiskurinn þerraður og lagður í olíuborið eldfast mót. Síðan saltaði ég og pipraði fiskinn, sparlega þó. Ég raðað spínati frjálslega á milli fiskbitanna og hrærði saman í skál matreiðslurjómanum og paprikumaukinu. Ég á alltaf til ungverskt paprikumauk sem kallast Ajvar og fæst víða. Ekki örvænta ef þið eigið það ekki til. Það er líka hægt að nota annað tilbúið paprikumauk eða einfaldlega grilla paprikur þar til svartar, geyma í 10 mínútur í skál með heimilisplasti yfir. Rífa síðan brennda skinnið af og mauka. Ég hellti sósunni yfir fiskinn og spínatið. Bræddi smjör og velti brauðbitunum upp úr smjörinu. Þeir lentu síðan ofan á fiskinum. Á þessu stigi barst mér kærkomin hjálp frá litlu hjálparhellunni minni sem vildi fá að sáldra ostinum yfir. Rétturinn rataði svo í ofninn og var þar í 20 mínútur.

Hjálparhellan að störfum

    

                   Rétturinn verður til                                                          Til reiðu
  
Á meðan útbjó ég salat. Mér fannst ómögulegt að nota ekki meira af matreiðslurjómanum fyrst ég átti eftir lögg af honum. Rjóminn fór því í salatdressingu. Ég hrærði 3 msk. af matreiðslurjóma saman við rúmlega ¼ tsk. af hrásykri, 1 msk. af sítrónusafa og sjávarsalti á hnífsoddi. Í salatið fór stökkt salat, trönuber, eplaskífur og möndluflögur. Fallegt og svolítið jólalegt salat! Við fjölskyldan slepptum hrísgrjónum þetta kvöldið. Mér fannst alveg nóg að hafa brauðið sem var ofan á fiskinum. En það fyllir óneitanlega að hafa hýðishrísgjón líka með.

 

               

         

 

           

Súr en sæt salatsósa

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!