Erna Sverrisdóttir
Bolludagur
06. febrúar 2018

Bolludagur

Bollur eru bestar

Auðvitað er bolludagurinn bestur. Allra handa bollur eru hreinlega algjört uppáhald. Kjötbollur, fiskibollur, ostabollur, vínbollur, óteljandi útgáfur af rjóma- og gerbollum. Best. Hér koma fjórar útgáfur. Fylltar bollur, gulrótarbollur, bolla úr osti sem álegg og bollur með kremi og ávaxtamauki.

 

Gulrótarbollukrans

(22 stk.)

2 dl vatn

1 ½ tsk. þurrger

1 msk. hunang

1 dl ólífuolía

1 dl hrein jógúrt frá Gott í matinn

200 g gulrætur, rifnar (um 3 stk.)

2 tsk. salt

Um 8 dl hveiti

Ólífuolía til penslunar

Graskersfræ eftir smekk

Setjið ylvolgt vatn í skál. Það er betra að hafa það kalt en of heitt! Sáldrið geri yfir og pískið saman.

Látið hunang, ólífuolíu, jógúrt og rifnar gulrætur saman við. Hrærið.

Bætið hveiti og salti saman við, smátt og smátt. Kannski þarf minna hveiti og jafnvel meira. Deigið á að vera örlítið klístrað. Látið hefast í skálinni undir hreinu viskastykki í 45 mínútur.

Bætið hveiti við deigið ef þurfa þykir, hnoðið aðeins og mótið langa pylsu. Skiptið niður í jafna 22 bita og mótið bollur. Setjið lítið kringlótt eldfast mót á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Raðið átta bollum í kring, án þess að þær snertist. Raðið síðan hinum í hring fyrir aftan. Látið hefast í 30 mínútur. Penslið með ólífuolíu og sáldrið graskersfræjum yfir. Bakið í 20 mínútur við 200° hita.

 

Beikonostakúla

1 box hreinn rjómaostur (125 g) frá Gott í matinn

1 ½ dl rifinn Óðals Cheddar

4 msk. söxuð fersk basilíka

Sjávarsalt og svartur pipar

6 beikonsneiðar

4 msk. pekanhnetur, saxaðar

Hrærið saman rjómaosti, cheddarosti og basilíku. Smakkið til með salti og pipar. Mótið bollu með höndunum og setjið inn í ísskáp.

Steikið beikonið vel stökkt. Kælið og myljið síðan niður og blandið saman við pekanhneturnar. Veltið ostakúlunni upp úr mulningnum.

 

Fylltar bollur

(24 stk.)

100 g smjör, brætt

3 ½ dl mjólk

2 tsk. þurrger

1 dl sykur

1 tsk. kardimommukrydd

½ tsk. salt

Um 8 dl hveiti

 

Fylling:

Sulta, súkkulaði, sítrónusmjör (lemon curd), Nutella eða marsípan

Flórsykur til skrauts

Setjið mjólkina saman við brætt smjörið. Passið að vökvinn sé ekki of heitur. Blandið geri, sykri, salti og kardimommukryddi saman við. Hrærið. Setjið hveitið saman við smátt og smátt. Þið þurfið kannski ekki allt magnið sem upp er gefið. Betra að deigið sé í blautari kantinum þegar það fer í hefingu. Látið deigið hefast í skálinni undir plastfilmu í 45 mínútur.

Hnoðið deigið niður og búið til langa pylsu. Skiptið henni niður í 24 jafna bita og mótið bollur. Gerið djúpa holu með þumalfingri og setjið fyllinguna þar ofan í. Best er að magn fyllingar miðist við um 1 tsk. Þegar fyllingin er komin í holuna er gott að klípa hliðarnar saman, móta bolluna til og setja síðan sárhliðina á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Látið hefast í 20-30 mínútur. Penslið með pískuðu eggi. Bakið í 7-8 mínútur við 250°.

Látið bollurnar kólna aðeins og sáldrið svo flórsykri yfir.

Bollur með eplamauki og rjómaostaglassúr

(24 stk.)

100 g smjör, brætt

3 ½ dl mjólk

2 tsk. þurrger

1 dl sykur

1 tsk. kardimommukrydd

½ tsk. salt

Um 8 dl hveiti

 

Eplamauk:

1 epli, afhýtt og kjarnhreinsað, skorið í smáa bita

1 tsk. kanill

2 msk. sykur

 

Rjómaostaglassúr:

1 box (125 g) hreinn rjómaostur frá Gott í matinn

75 g mjúkt smjör, skorið í bita

250 g flórsykur

Setjið mjólkina saman við brætt smjörið. Passið að vökvinn sé ekki of heitur. Blandið geri, sykri, salti og kardimommukryddi saman við. Hrærið. Setjið hveitið saman við smátt og smátt. Þið þurfið kannski ekki allt magnið sem upp er gefið. Betra að deigið sé í blautari kantinum þegar það fer í hefingu. Látið deigið hefast í skálinni undir plastfilmu í 45 mínútur.

Hrærið saman eplabitum, sykri og kanil.

Hnoðið deigið niður og búið til langa pylsu. Skiptið henni niður í 24 jafna bita og mótið bollur. Setjið þær á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Klippið kross í bollurnar og ýtið gatinu í sundur með puttunum. Setjið 1 góða tsk. af eplamaukinu ofan í gatið. Látið bollurnar hefast í 20-30 mínútur. Penslið kantana með pískuðu eggi og bakið í 10-12 mínútur við 230°.

Hrærið öllu saman sem á að fara í glassúrið og setjið á bollurnar þegar þær hafa aðeins kólnað.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!