Erna Sverrisdóttir
Bláberjaterta og bláberja tiramisu
08. september 2017

Bláberjaterta og bláberja tiramisu

 

Að vanda býð ég upp á bláberjaþema við september þrepið. Tveir afar ljúffengir eftirréttir leiða árstíðina. Báðir fljótlegir, ef það er kostur! Sá fyrri í miklu uppáhaldi hjá syni mínum og sá seinni undir áhrifum frá ferð minni til Sikileyjar og suður Ítalíu. Allavega einhvers konar samruni af einhverju. Í það minnsta voða gott!

 

Bláberjaterta

 

50 g mjúkt smjör

1 ½ dl sykur

3 eggjarauður

1 tsk. vanilla

3 dl hveiti

1 ½ dl mjólk

 

Marengs:

3 eggjahvítur

3 dl sykur

3 dl bláber

 

Meðlæti:

léttþeyttur rjómi

 

1. Stillið ofninn á 200° undir- og yfirhita.

2. Hrærið smjör og sykur létt og ljóst. Bætið eggjarauðum saman við, einni í einu. Hrærið vel saman á milli.

3. Bætið vanilludropum saman við. Þá hveiti og loks mjólk. Hrærið eins stutt og hægt er.

4. Setjið deigið í kringlótt bökunarmót, klætt bökunarpappír. Bakið neðarlega í ofninum í 12-15 mínútur.

5. Stífþeytið þá eggjahvítur og bætið sykrinum saman við smátt og smátt og þeytið síðan aðeins áfram. Blandið bláberjum varlega saman við með sleif. Dreifið marengsnum yfir tertubotninn.

6. Hækkið hitann í 250°og bakið tertuna áfram í 5-8 mínútur. Fylgist vel með svo marensinn brenni ekki. Berið fram með léttþeyttum rjóma.

 

Bláberja-Tiramisu

(fyrir 6)

 

400 g bláber

¾ dl sykur og 2 msk

6 msk. Limoncello líkjör eða annar líkjör, t.d. Cointreau, Grand Marnier eða berjasafi að eigin vali

8 stk. Lady Finger kökur

2 eggjarauður

1 box íslenskur Mascarponeostur

saxaðar pistasíur, eftir smekk

 

1. Setjið bláber í pott ásamt ¾ dl af sykri og 2 msk. af líkjör. Látið malla þar til sykurinn er uppleystur. Passið að mauka ekki berin. Kælið.

2. Hrærið saman létt og ljóst eggjarauður og 2 msk. sykur. Hrærið Mascarponeosti og 2 msk. af líkjör saman við.

3. Bleytið Lady Finger kökurnar upp úr 2 msk. af líkjör. Brjótið helminginn niður og setjið í 6 glös. Í staðinn fyrir að setja í glös mætti nota fat eða skál. Þá þyrfti kannski aðeins fleiri Lady Finger kökur.

4. Setjið helminginn af bláberjunum ofan á Lady Finger kökurnar og þá helminginn af Mascarponehrærunni. Endurtakið síðan einu sinni. Toppið með söxuðum pistasíum. Gott er að geyma réttinn í kæli í a.m.k. 2 tíma áður en hann er borinn fram. Það skemmir ekki að bjóða upp á þeyttan rjóma með!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!