Erna Sverrisdóttir
Bláberjafjall
04. september 2015

Bláberjafjall

Ágúst og ber haldast í hendur. Lítið hef ég þó séð af berjum í sveitinni minni, þetta síðsumar. En þó eitthvað. Nokkur villt jarðarber fann ég út í skógi um daginn og mikið varð ég glöð. Þau voru óttalega smá. Kom ekki að sök. Þau voru fagurrauð og sæt. Best var samt að finna þau í íslenskum skógi á bleiku ágústkvöldi. Hér kemur hins vegar gómsæt ostakaka með hvítu súkkulaði og bláberjum. Hún hvarf á þessu sama kvöldi.

Ostakaka með hvítu súkkulaði og bláberjum

Botn:

200 digestive-kex, mulið
80 g smjör, brætt

Fylling:

200 g hvítt súkkulaði
300 g rjómaostur
2 ½ dl grísk jógúrt
1 dl sykur
3 egg
fínrifinn börkur af 1 sítrónu

Krem:

2 ½ dl rjómi
1 ½ dl sýrður rjómi
2 tsk vanillusykur
3 dl bláber

 

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 175°.

2. Klæðið lausbotna hringform sem er u.þ.b. 24 cm í þvermál með bökunarpappír. Þrýstið kexmulningnum á botninn og upp með köntunum. Bakið í 10 mínútur. Takið úr ofninum og lækkið hitann í 150°.

3. Bræðið súkkulaðið á lágum hita. Hrærið saman á meðan rjómaosti, grískri jógúrt og sykri. Bætið eggjum, sítrónuberki og hvíta súkkulaðinu saman við. Hrærið. Hellið ofan á forbakaðan botninn. Setjið formið frekar neðarlega í ofninn og bakið í 30-40 mínútur. Látið kólna.

4. Léttþeytið rjómann. Blandið sýrðum rjóma saman við ásamt vanillusykri. Breiðið yfir kökuna og sáldrið bláberjum þar ofan á.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!