Erna Sverrisdóttir
Baukað á aðventu
14. desember 2016

Baukað á aðventu

Baukað á aðventu

Þá eru það snúðar í jólafötum og tiramisú með karamellu. Dúnmjúkir snúðar gleðja sannarlega á aðventu. Bragð og útlit. Hvítir og rauðir. Karamellu tiramisú er prýðilegur eftirréttur á jólahlaðborðið eða sem ljúfur endir á hátíðarmat. Ekki skemmir fyrir hversu skamman tíma það tekur að útbúa réttinn. Og svo er líka hægt að gera hann með góðum fyrirvara. Hvað er betra í önnum daganna? Gleðileg jól!

 

 

Dúnmjúkir kanilsnúðar í jólafötum

(u.þ.b. 12 stk)

 

1 dl ylvolgt vatn
1 ½ tsk. þurrger
¾ dl sykur
125 g smjör, brætt
1 dl sýrður rjómi 18%
2 egg
u.þ.b. 8 dl hveiti eða eins og þurfa þykir
½ tsk. salt

Fylling:

50 g smjör, brætt
⅔ dl púðursykur
4 msk. síróp
2 tsk. kanill

Glassúr:

2 ½ dl flórsykur
⅔ dl sýrður rjómi 18%
1 msk. rjómi

Skraut:
- mulinn Bismark brjóstsykur eftir smekk

1. Leysið gerið upp í vatninu. Bætið sykri út í og þá smjöri og sýrðum rjóma. Hrærið. Pískið eggjum saman við. Setjið salt út í og svo hveiti smátt og smátt eða þar til þið hafið óklístrað en létt deig. Hnoðið í 5 mínútur. Setjið deigið í skál og hyljið með plastfilmu. Látið hefast í klukkutíma.

2. Hnoðið deigið aðeins niður og fletjið út í ferning sem er u.þ.b. 45 x 45 cm. Penslið með bræddu smjöri og sírópi. Sáldrið kanil og púðursykri yfir. Rúllið upp og skerið í 12 bita. Leggið snúðana á ofnplötu klædda bökunarpappír. Þrýstið á hvern og einn með lófanum þannig að þeir fletjist örlítið út. Bakið í u.þ.b. 20 mínútur við 180°. Látið snúðana kólna aðeins áður en glassúrinn fer ofan á.

3. Hrærið saman öllum hráefnum sem fara í glassúrinn og smyrjið ofan á snúðana. Sáldrið mulnum brjóstsykri yfir, eftir smekk.

 

Fljótlegt tiramisú með karamellu

(fyrir 6 glös eða eitt fat)

 

1 box mascarponeostur
1 ½ dl rjómi
1 tsk. vanilla
⅔ dl flórsykur
125 g ladyfingers
2 ½ dl kaffi
1 dl dulce de leche
rauð ber að eigin vali

1. Hrærið saman í hrærivél mascarponeposti, rjóma, vanillu og flórsykri.

2. Dýfið einu og einu ladyfingerskexi í kaffið. Setjið u.þ.b. 2,5-3 fingur í botn á glasi. Setjið þar ofan á kremið og msk. af dulce de leche. Endurtakið og toppið með karamellu og berjum. Kælið. Hægt að geyma í a.m.k. sólarhring.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!