Erna Sverrisdóttir
Bakað og baukað fyrir kaffiboð eða marens-ostaísterta, pepperóní-ostasnúðar og bláberjasnúðar með rjómaosti
26. apríl 2016

Bakað og baukað fyrir kaffiboð eða marens-ostaísterta, pepperóní-ostasnúðar og bláberjasnúðar með rjómaosti

Sumardagurinn fyrsti er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Minning um góðan og hátíðlegan mat, heitt bakkelsi, nýja strigaskó og sandlitaðan brennóbolta sem ilmaði af vori. Best og óhversdagslegast var fríið af því það bar upp á annars venjulegum virkum degi. Með minningunni bjó ég til þrjá dýrindis rétti svona fyrir þrjúkaffið og vorið.

Sonur minn er mjög hrifinn af marenskökum og ís. Sjálfri þykja mér samt ferskar rjómaostakökur betri. Einhvern tímann reif ég uppskrift úr dönsku blaði af köku sem sameinaði þetta þrennt; marens, rjómaost og ís. Svo á sumardaginn fyrsta mundi ég eftir þessu rifrildi ofan í skúffu og ákvað að gleðja alla fjölskyldumeðlimi jafnt. Manninum mínum þykja eiginlega allar kökur góðar. Tertan er fljótgerð en það þarf að gera hana snemma dags ef það á að bera kökuna fram um kaffileytið. Góð var hún svo sannarlega! Auk þess ákvað ég að gera tvennskonar fyllta snúða. Fyllingarnar réðust af því sem til var í ísskápnum. Urðu svo til snúðar með rjómaosti, límónuberki, pekanhnetum og bláberjum annars vegar og hins vegar með sýrðum rjóma, pepperóní, osti og vorlauki. Dúnmjúkir og dýrðlegir.

 

Bláberjasnúðar með rjómaosti

(12 stk.)

 

Deig:

2 dl ilvolgt vatn

2 ½ tsk þurrger

2 msk hunang

2 msk repjuolía

¾ tsk salt

hveiti eins og þurfa þykir

 

Fylling:

60 g rjómaostur við stofuhita

½ tsk límónubörkur, fínrifinn

¾ tsk kanill

2 msk púðursykur eða hvítur sykur

2 msk saxaðar pekanhnetur

2 ½ dl bláber, fersk eða frosin

 

Skraut:

 

1 msk púðursykur

1 msk pekanhnetur, saxaðar

 

1. Leysið gerið upp í vatninu. Setjið hunang og olíu saman við. Hrærið.

2. Bætið hveiti og salti út. Hrærið og notið eins mikið hveiti og þurfa þykir eða þar til deigið er ekki lengur klístrað. Hnoðið í stutta stund. Látið hefast undir rökum klút á hlýjum stað í 30 mínútur.

3. Hveitiberið borðplötu og fletjið deigið út í ferning sem er u.þ.b. 30 x 30. Smyrjið með rjómaosti og sáldrið hinum hráefnunum sem eiga að fara í fyllinguna yfir. Rúllið upp og skerið í 12 bita.

4. Setjið snúðana á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Fletjið snúðana aðeins út með lófanum og sáldrið 1 msk af púðursykri og 1 msk af pekanhnetum jafnt yfir þá. 

5. Látið hefast í 20 mínútur.

6. Bakið í 15-20 mínútur við 180° eða 160° og blæstri. Látið kólna aðeins og sáldrið loks flórsykri yfir.

 

Pepperóni-ostasnúðar

(12 stk.)

 

Deig:

2 dl ilvolgt vatn

2 ½ tsk þurrger

2 msk hunang

2 msk repjuolía

¾ tsk salt

hveiti eins og þurfa þykir

 

Fylling:

1 dl sýrður rjómi 18%

3 vorlaukar, saxaðir

1 tsk þurrkað timian eða oregano

salt og svartur pipar

50 g pepperóní eða u.þ.b. 16 litlar sneiðar, saxað

1 ½ dl pizzaostur

 

Skraut:

½ dl pizzaostur

 

1. Leysið gerið upp í vatninu. Setjið hunang og olíu saman við. Hrærið.

2. Bætið hveiti og salti út. Hrærið og notið eins mikið hveiti og þurfa þykir eða þar til deigið er ekki lengur klístrað. Hnoðið í stutta stund. Látið hefast undir rökum klút á hlýjum stað í 30 mínútur.

3. Hveitiberið borðplötu og fletjið deigið út í ferning sem er u.þ.b. 30 x 30. Smyrjið með sýrða rjómanum.

4. Steikið vorlaukinn á pönnu og kryddið með timiani/oreganó, salti og pipar. Dreifið yfir sýrða rjómann.

5. Sáldrið loks hinum hráefnunum yfir og rúllið upp. Skerið í 12 bita.

6. Setjið snúðana á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Fletjið snúðana aðeins út með lófanum og sáldrið ostinum jafnt yfir.

7. Bakið í 15-20 mínútur við 180° eða 160° og blæstri.

 

Marens-ostaísterta

 

1 tilbúinn marensbotn

4 dl rjómi

4 eggjarauður

2 dl sykur

200 g rjómaostur

sjávarsalt á hnífsoddi

korn úr 1 vanillustöng

fínrifinn börkur af 1 límónu

2 matarlímsblöð

4 eggjahvítur

 

Skraut:

fersk ber að eigin vali

1. Þeytið rjómann og setjið til hliðar.

2. Þeytið saman eggjarauður, sykur, salt og vanillukorn þar til létt og ljóst.

3. Látið rjómaost og lómónubörk saman við og hrærið þar til samlagast.

4. Leggið matarlímsblöðin i bleyti í köldu vatni í 5 mínútur. Kreistið vatnið úr þeim og bræðið í potti ásamt 3 msk af eggjahrærunni. Hrærið stöðugt í á meðan. Hellið loks saman við restina af eggjahrærunni. Hrærið saman. Blandið síðan saman við rjómann.

5. Stífþeytið eggjahvíturnar og setjið þær varlega saman við.

6. Látið marensbotninn í lausbotna hringform og hellið ostaísnum yfir. Setjið í frysti í a.m.k. 4 tíma.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!