Erna Sverrisdóttir
Allt hefur sinn tíma - Sefun
06. febrúar 2013

Allt hefur sinn tíma - Sefun

Allt hefur sinn tíma - Sefun

Salat og sódavatn eru í órafjarlægð á köldum, dimmum vetrarkvöldum. Þrátt fyrir að matargestir séu dömur. Febrúar er sannarlega tími fyrir umvefjandi mat eins og pasta með kraftmiklum sósum, matarmiklar súpur og hægeldaða kjötrétti.

Í gærkvöldi fékk ég býsna góðar vinkonur til mín og bauð upp á tagliatelle með rækjum og í lokin fallega bleikar hindberjapönnukökur með grískri jógúrt og karamellusósu. Hitaeiningar réðu ekki för að þessu sinni. Sennilega friðaði það samviskuna að geta notað Matreiðslurjóma í staðin fyrir rjóma og gríska jógúrt fyrir þeyttan rjóma. Í sumum kreðsum hefur pasta fengið óskiljanlegt óorð á sig. Mín skoðun er sú að flest sé best í hófi og allt hefur sinn tíma. Pastarétturinn sem hér um ræðir er undir áhrifum af uppskrift sem er að finna í dásamlega fallegri matreiðslubók sem ég fékk í jólagjöf og heitir What Katie ate.  Í minni uppskrift bætti ég meðal annars við ofnbökuðum tómötum sem ég elda í tíma og ótíma. Þá nota ég ofan á brauð, í salöt, sem meðlæti og í pastarétti. Sætir og ljúfir. Hér brýt ég allar pastareglur og hef parmesanost bæði í sósunni og svo sem meðlæti. Hvað um það. Það var ósköp gott. Pönnukökurnar voru afar góðar og líka ósköp fallegar. Gammel rósableikar, myndi mamma segja. Grísk jógúrt, hindberjasósa og karamellusósa. Þétt, súrt, ferskt og sætt.

 

Tagliatelle með rækjum og tvennskonar tómötum

(fyrir 4-6)

300 g kirsuberja- eða kokteiltómatar, skornir í tvennt
1/2 msk ólívuolía
1/2 tsk þurrkað oregano
sjávarsalt og svartur pipar
1/8 tsk sykur
500 g tagliatelle
500 g stórar rækjur eða sama magn af humri
3 hvítlauksrif, marin
3 msk smjör
3 skallottulaukar, fínsaxaðir
1 1/4 dl sólþurrkaðir tómatar, skornir í ræmur
25 g fersk basilíka, gróft söxuð
2 dl þurrt hvítvín
2 1/2 dl vatn og hálfur teningur af kjúklingakrafti eða 2 1/2 dl kjúklingasoð
2 1/2 dl matreiðslurjómi
1 1/4 dl parmesanostur, fínrifinn
svartur pipar
sjávarsalt ef þurfa þykir
sítrónubátar til að kreista yfir þegar rétturinn er tilbúinn

 

Kirsuberjatómatana skar ég í tvennt og lagði á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Dreipti ólívuolíu yfir, þá oregano, sykri, salti og pipar. Ég setti síðan tómatana í ofninn sem var orðinn 250° heitur og bakaði þá í 25 mínútur. Smjörið fór á pönnu ásamt hvítlauk og um leið ilmaði eldhúsið af hvítlauk og tómötum. Kuldi og myrkur hurfu. Ég léttsteikti rækjurnar upp úr hvítlaukssmjörinu og tók þær síðan af pönnunni og setti til hliðar. Það mætti allt eins nota humar í staðinn fyrir rækjurnar. Þá fóru skallottulaukur, sólþurrkaðir tómatar og basilíka á pönnuna í eina mínútu og loks allur vökvinn. Þetta lét ég sjóða niður í 20 mínútur. Bætti þá parmesanostinum saman við og lét sjóða saman í eina mínútu. Smakkaði til með pipar en salt þurfti ég ekki að nota, soðið og osturinn sáu um það. Dásamlegur angann og gestirnir runnu á lyktina. Ég sauð pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka, í miklu og vel söltu vatni. Fýrði upp í sósunni og setti rækjurnar og soðið af þeim saman við. Velti pastanu upp úr herlegheitunum og færði yfir á fat, skreytti með ofnbökuðu tómötunum og ferskri basilíku. Gestirnir sáu svo um að bæta parmeseanosti við.


 

Hindberjapönnukökur með hindberjasósu, grískri jógúrt og karamellusósu (fyrir 4)

Pönnukökur:
(8-10 stk.)

1 1/4 dl hveiti
1 msk sykur
1 1/4 dl mjólk
3 msk kókosmjöl
2 stór egg
1 1/4 dl matreiðslurjómi
nokkrir dropar af rauðum matarlit
1 msk hindberjasósa (sjá uppskrift að neðan)
nokkur frosin eða fersk hindber, til skrauts
flórsykur, til skrauts
500 g grísk jógúrt

hindberjasósa:
250 g frosin hindber
2/3 dl sykur

karamellusósa:
1 1/4 dl matreiðslurjómi
75  g smjör
1 1/4 dl púðursykur
sjávarsalt á hnífsoddi

Það góða við þennan rétt, fyrir utan náttúrulega hvað hann er dásamlegur á bragðið, er að það er hægt að útbúa hann fyrr um daginn ef þannig stendur á. Best er að byrja á hindberjasósunni. Ég sauð saman sykur og frosin hindber í potti. Ég lét suðuna koma upp á lágum hita. Hækkaði síðan hitann og lét sósuna malla í fimm mínútur eða svo. Sigtaði svo sósuna og setti til hliðar. Pönnukökudeigið gerði ég á hefðbundinn háttt, eða eins og mamma kenndi mér. Þurrrefni saman í skál. Vökvi pískaður saman og þurrefnunum síðan blandað saman við smátt og smátt. Best er að geyma deigið í 30 mínútur eða lengur. Pönnukökurnar steikti ég á pönnukökupönnu og lét síðan rjúka úr þeim á grind áður en ég staflaði þeim. Auðvitað dáðist ég að bleika litnum. Karmellusósan er afar einföld og líka afar ljúffeng með ís eða sem krem yfir köku. Ég setti öll hráefnin sem áttu að fara í sósuna í lítinn pott og hafði lágan hita undir til að byrja með. Þegar allt var bráðnað saman hækkaði ég hitann og hafði hann meðal háan. Sósan bullsauð síðan í 8 mínútur og þá var hún tilbúin. Samsetning var skemmtileg. Hindberjasósu var makað á helming hverrar pönnuköku og væn sletta af grískri jógúrt sett á fjórða part. Ein stór dós af grískri jógúrt dugar á átta pönnukökur. Gott er að hræra aðeins upp í jógúrtinni áður en hún er sett á pönnsurnar. Pönnukökurnar lagði ég svo saman.  Fyrst til helminga og síðan í fernt. Raðaði þeim á diska, sáldraði flórsykri yfir og hindberjum. Loks kom karamellusósan volg og dýrðleg. Ég bar auka sósu fram með pönnukökunum og gestunum þótti ekki verra að bæta á sig karamellusósu. Einstaklega góður réttur, þó ég segi sjálf frá!



 






 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!