Erna Sverrisdóttir
Af tyrkneskum ættum
29. maí 2013

Af tyrkneskum ættum


Mér þykja heimagerðar pizzur í allrahanda útgáfum alveg óhemju góðar. Sömuleiðis allt sem á eitthvað skylt við þennan góða ítalska rétt eins og til dæmis brauð með allskyns gómsætum fyllingum. Og það er þess vegna sem mig langar að deila hér með ykkur afar góðum rétti, sem á rætur sínar að rekja til Tyrklands og kallast Gözleme. Ég veit ekki hversu hefðbundin og kórrétt mín útgáfa er, en góð er hún (að vera góður með sig fylgir því víst að blogga, ekki satt?).

Hér er sem sagt á ferðinni fyllt flatbrauð með spínati, kryddaðri hakkblöndu með sítruskeimi og sneisafullt af dásamlegum ostum. Mitt Gözleme er stundum í laginu eins og ferhyrningur en oftar í áttina að hálfmána, sem er auðvitað vel við hæfi, tyrkneski hálfmáninn og allt það. Oftast er Gözleme steikt á pönnu, stundum grillað en ég kýs að baka í ofni. Sítrónusafi og grísk jógúrt í miklu magni eru lífsnauðsynlegir fylgifiskar Gözleme (ég grínast aldrei með mat).

 

Gözleme
(4 stk.)

ólívuolía
300 g spínat, grófir stilkar fjarlægðir
sjávarsalt og svartur pipar
1 lítill laukur, fínsaxaður
2 hvítlauksrif, marin
500 g nautahakk
1 - 2 msk harissamauk, magn fer eftir smekk
1 tsk cummin
1 tsk þurrkað kóríander
2/3 dl ítölsk steinselja, fín söxuð
börkur af 1 sítrónu
svartur pipar
200 g fetakubbur, mulinn
2 1/2 dl Búri eða Havarti, rifinn

deig:
1 3/4 dl volgt vatn
1 tsk þurrger
1/2 tsk sykur
1 tsk sjávarsalt
hveiti eins og þurfa þykir

meðlæti:
sítrónubátar
grísk jógúrt


Ég byrjaði á því að steikja spínatið í skömmtum í stutta stund upp úr ólívuolíu. Mér fannst gott að salta og pipra það örlítið. Síðan lét ég það kólna á eldhúspappír.  Ég þreif pönnun sem var kannski óþarfa pjatt, og mýkti laukinn og hvítlaukinn í 1 msk af ólívuolíu. Svo setti ég hakkið saman við, harissamaukið og kryddin. Best er að steikja þar til allur vökvi er uppgufaður. Þetta setti ég síðan til hliðar, pipraði og bætti sítrónuberkinum saman við. Hakkið verður að vera orðið alveg kalt áður en það fer í deigið.

Þá var komin tími á að gera sjálft deigið. Þar notaði ég sömu aðferð og við pizzadeig. Ég leysti þurrgerið upp í vatninu, hrærði þar til freyddi og bætti sykri og salti saman við. Hveitið setti ég saman við smátt og smátt þar til ég var með mjúkt og óklístrað deig í höndunum. Ég hnoðaði deigið í stutta stund og lét það í oíuborna skál, lagði klút yfir og lét það hefast ofan á miðstöðvarofninum (vagga alls gerbaksturs á heimilinu) í eldhúsinu í 20 mínútur. Að því loknu hnoðaði ég deigið niður og skipti því í 4 hluta.Ofninn var settur á 180°. Hver partur var flattur út í ferhyrning u.þ.b 25 cm X 35 cm. Þetta er bara lauslega áætlað, þarf alls ekki að vera svona nákvæmt. Þið finnið ykkar takt.

Loks setti ég fyllinguna ofan á helming hvers parts. Fyrst setti ég ¼ af hakkinu, þá ¼ af spínati, ¼ af feta sem ég muldi yfir og ¼ af Havarti. Að lokum lagði ég partana saman og braut upp á kantana til að loka vel. Það er ágætt að þrýsta síðan á samskeytin með gaffli. Þetta gómsæti fór svo á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hver ferhyrningur var penslaður með ólívuolíu og allt bakað í 15-20 mínútur eða þangað til gullið og girnilegt. Herlegheitin voru síðan borin fram með sítrónubátum og ógrynni af grískri jógúrt.

 
Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!