Erna Sverrisdóttir
Aðalbláber í marens og rjóma
28. ágúst 2013

Aðalbláber í marens og rjóma

 

Víst er að margir leita berja nú um stundir. Sjálf komst ég í stinn og ljúffeng aðalbláber á dögunum. Það er góð tilfinning að útbúa mat úr hráefni sem maður hefur sjálfur aflað.

Fyrir mér eru rjómi og bláber hið fullkomna par. Síðustu morgna hef ég notið þess að borða bláber með grískri jógúrt og rjóma. Kjörinn lág kolvetna morgunmatur fyrir þá sem það vilja. Ég er líka sérstaklega ánægð með nýju umbúðirnar á rjómanum í Gott í matinn línunni frá MS. Skrúftappinn gerir gæfumuninn!

Að þessu sinni er ég með dásamlegan eftrirétt þar sem fyrrnefnt par leikur aðalhlutverkið ásamt marens og kókos. Sérlega einfaldur og fljótlegur réttur er hvarf á augabragði ofan í matargesti mína á ágústkvöldi. Dýrindis terta. Tekur skemmri tíma að útbúa hana, en að hlaupa út í búð eftir ís.

Í fyllingunni eru bara bláber og rjómi. Í staðinn fyrir að nota eingöngu rjóma mætti hræra varlega saman létt þeyttan rjóma og gríska jógúrt.

Marensrúlluterta með bláberjum og rjóma

(fyrir 4-6)

Marens:

4 eggjahvítur

2 ½ dl sykur

50 g stórar kókosflögur

Fylling:

½ l rjómi, eða 2 ½ dl rjómi og 2 ½ dl grísk jógúrt

300 g bláber

flórsykur til skrauts

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stillti hann á 200°. Alltaf þegar ég geri marensbotna eða pavlovur þá strýk ég innan úr hrærivélaskálinni með hvítvínsediki. Sítrónusafi ætti líka að gera sama gagn. Þetta geri ég til þess að losna við alla fitu, sem gæti leynst í skálinni. Besta ráð fyrir fullkominn marens. Ég stífþeytti eggjahvíturnar og bætti sykrinum saman við smátt og smátt. Ég hef vanið mig á að setja eina matskeið af sykri í einu og bíða í 30 sekúndur þar til ég bæti næsta skammti út í. Mig minnir að ég hafi pikkað þetta upp hjá Nigellu. Næst lagði ég bökunarpappír á bökunarplötu og dreifði marensinum þar ofan á. Stærðin var sirka 40 x 30. Má alveg verið minna, talan er ekki heilög. Platan fór síðan í ofninn í næst efstu rim. Þar var hún í 8 mínútur. Þá tók ég hana út og dreifði kókosflögunum yfir. Lækkaði ofninn í 160°og bakaði áfram í miðjum ofni í 10 mínútur. Herlegheitunum hvolfdi ég á bökunarpappír og lét marensinn kólna. Það tók örskamma stund. Á meðan þeytti ég rjómann. Ég er með mjög ákveðnar skoðanir hvernig ég vil hafa rjómann. Mér finnst hann bestur handþeyttur, en hef sjaldnast tíma til þess. Svo ég létt þeyti hann í hrærivélinni, þannig að hann verður loftkenndur og heldur hvíta litnum. Ég smurði rjómanum á marensbotninn og dreifði fallegu bláberjunum yfir. Síðan rúllaði ég kökunni upp og dustaðiflórsykri yfir.

Dásamlega gott!

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!